Kvikmyndamiðstöð auglýsir eftir kvikmyndaráðgjafa fyrir heimildamyndir
Kvikmyndasjóður starfar á vegum Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Hlutverk Kvikmyndamiðstöðvar er að efla og kynna íslenska kvikmyndagerð með fjárhagslegum stuðningi.
Forstöðumaður tekur endanlega ákvörðun um styrkveitingu úr Kvikmyndasjóði, að fengnu skriflegu listrænu mati kvikmyndaráðgjafa.
Kvikmyndaráðgjafi er sjálfstætt starfandi sérfræðingur sem leggur listrænt mat á umsóknir og með hliðsjón af fjárhags- og framkvæmdaþáttum. Ráðgjafi heimildamynda fylgist jafnframt með framvindu þeirra verkefna sem stuðning hljóta.
Kvikmyndaráðgjafi skal hafa staðgóða þekkingu og/eða reynslu á sviði heimildamyndagerðar og má ekki hafa hagsmuna að gæta varðandi úthlutun eða gegna störfum utan Kvikmyndamiðstöðvar sem tengjast íslenskri kvikmyndagerð meðan á ráðningartíma stendur. Umsækjandi þarf að hafa lokið námi frá viðurkenndum kvikmyndaskóla og/eða hafa a.m.k. 3ja ára starfsreynslu af einhverri af lykilstöðum í gerð heimildamynda. Gert er ráð fyrir að kvikmyndaráðgjafi fylgist vel með innlendri og alþjóðlegri heimildamyndagerð. Að auki er mikilvægt að ráðgjafi hafi breiða þekkingu og gott menningarlæsi.
Krafist er góðrar íslensku- og enskukunnáttu, auk þess er kunnátta í einu Norðurlandamáli kostur.
Í starfinu felst nákvæm fagleg skoðun og skriflegur rökstuðningur ákvarðana. Mikilvægt er að ráðgjafi hafi góða samskiptahæfileika og eigi auðvelt með að tjá sig jafnt í ræðu sem í riti.
Ráðgjafi á í virku samstarfi við framleiðslustjóra, og aðra starfsmenn KMÍ á sviði framleiðslu og kynninga.
Umsóknir skulu berast til Martin Schlüter framleiðslustjóra Kvikmyndamiðstöðvar í formi ferilskrár ásamt kynningarbréfi, á netfangið martin.schluter@kvikmyndamidstod.is
Umsóknarfrestur er til og með 10. september.