Um KMÍ
Á döfinni
  • KMI_logo_

24.4.2020

Kvikmyndamiðstöð Íslands auglýsir eftir styrkumsóknum

Samkvæmt þingsályktun um sérstakt tímabundið fjárfestingaátak til að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru hefur Kvikmyndasjóður fengið 120 m.kr. í sérstaka fjárveitingu til styrkveitinga til átaksverkefna.

Verkefni sem sótt er um styrk fyrir þurfa að hefjast fyrir 1. september 2020 og vera lokið fyrir 1. apríl 2021.

Umsóknarfrestur gildir til og með 10. maí næstkomandi en gert er ráð fyrir að úthlutun verði lokið fyrir 1. júní.

Hægt að sækja um styrkina á vefgátt Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Almennar úthlutunarreglur Kvikmyndasjóðs gilda um þessar úthlutanir og því gildir m.a. að styrkir eru eingöngu veittir þeim sem hafa kvikmyndagerð að aðalstarfi.

Hægt er að sækja um þrjá styrktarflokka sem hluta af þessu átaksverkefni en það eru sérstakir þróunarstyrkir, framleiðslustyrkir og kynningarstyrkir.

a. Þróunarstyrkur - átaksverkefni

Veittir sem mótvægi við þeirri óvissu sem ríkir um fjármögnun og framleiðslu kvikmynda. Áhersla verður lögð á að styrkja verkefni þar sem framleiðendur, höfundar og leikstjórar koma að verkefnum við að fullvinna undirbúning kvikmynda sem munu fara í framleiðslu síðar.

Viðmiðunarfjárhæð að hámarki 10 m.kr. fyrir leikið efni og 5 m.kr. að hámarki fyrir heimildamyndir

b. Framleiðslustyrkur - átaksverkefni

Einkum til innlendra ódýrari leikinna mynda eða tilraunaverkefna sem geta hafið og lokið framleiðslu fyrir 1. apríl 2021. Skila þarf sambærilegum gögnum og við umsókn um framleiðslustyrk auk greinargerðar þar sem fram kemur ítarleg framleiðslu og framkvæmdaáætlun og hvernig ná skal til skilgreinds áhorfendahóps.

c. Kynningarstyrkur - átaksverkefni:

Tekið verður á móti umsóknum um sérstaka kynningar- og markaðsstyrki til sýninga á íslenskum myndum eða kvikmyndaviðburðum í kvikmyndahúsum innanlands. Skilyrði er að framleiðslu myndar sé lokið og fyrir liggi áætlun um kynningu. Tillit verður tekið til þeirra sem hafa þurft að fresta sýningum í kvikmyndahúsum vegna covid-19 faraldursins.

Mat umsókna

Við mat umsókna verður litið sérstaklega til áhrifa styrkveitinga til að skapa störf og vega á móti efnagssamdrætti vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Því verður m.a. litið til fjölda listrænna lykilstarfsmanna sem kemur að verkefnum sem sækja um styrk. Umsækjendur eru hvattir til að huga að jafnri stöðu kynja í umsóknum. Umsóknum um myndir sem höfða til barna og unglinga verður jafnframt forgangsraðað.

Nánari upplýsingar um styrkveitingar og málsmeðferð má finna hér eða með því að senda tölvupóst á netfangið umsoknir@kvikmyndamidstod.is. 

Aðrir hlekkir:

Um er að ræða tímabundið fjárfestingarátak á grundvelli þingsályktunar sem samþykkt var á Alþingi 30. mars, þar sem markmiðið er að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

Þá tiltekur mennta- og menningarmálaráðuneytið sérstakar áherslur og kröfur sem gilda um þessar styrkveitingar

Fjárveitingin rennur í Kvikmyndasjóð og um styrkveitingar gilda almennar úthlutunarreglur sjóðsins, sem settar eru fram í lögum og reglugerð um sjóðinn. Þ.e. styrkveitingar þurfa að falla að almennum starfsreglum sjóðsins.

Þingsályktun um sérstakt tímabundið fjárfestingarátak

Frétt af vef mennta- og menningarmálaráðuneytis

Kvikmyndalög nr.137/2001

Reglugerð nr.1349/2018