Kvikmyndin Fjallið verður fyrsta græna kvikmyndin sem vottuð er á Íslandi
Kvikmyndin Fjallið, sem er skrifuð og leikstýrt af Ásthildi Kjartansdóttur, er sú fyrsta til að fá sjálfbærnivottun Green Film á Íslandi.
Í tilkynningu frá framleiðendum myndarinnar segir að vottunin marki nýtt upphaf í umhverfisvænni framleiðsluháttum sem setji staðal fyrir mælanlega sjálfbærni í framleiðsluferlinu.
Til að hljóta Green Film vottun þurfa framleiðendur að uppfylla ákveðin viðmið, sem lýsa aðgerðum eins og orkusparnaði, vistvænni ferðalögum, sjálfbærum birgjum, og úrgangsstjórnun. Framleiðandi og grænstjóri verkefnisins bera ábyrgð á að setja fram og framfylgja sjálfbærniáætlun.
Green Film er alþjóðleg handbók frá Trentino Film Commission sem þróuð var til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum kvikmyndagerðar. Handbókin inniheldur ítarlegar leiðbeiningar um hvernig hægt er að gera framleiðsluna grænni, viðmið sem framleiðendur þurfa að uppfylla til að hljóta vottunina ásamt stigakerfi til vottunar. Íslenska útgáfan var gefin út af Kvikmyndamiðstöð Íslands (KMÍ) í samstarfi við Trentino Film Commission.
Sjálfbærari vinnubrögð á öllum sviðum
Framleiðendur og leikstjóri Fjallsins, í samvinnu við leikara og tökulið, unnu markvisst að því að uppfylla strangar kröfur vottunarinnar, þar á meðal að þróa sjálfbærniáætlun og nýta umhverfisvæna ferðaáætlun.
„Hefðbundin kvikmyndaframleiðsla getur haft gríðarlegt kolefnisspor, einkum vegna flugferða, flutninga, rafmagnsnotkunar og úrgangs. Við settum okkur að draga úr orkunotkun, nota endurnýjanlega orkugjafa, lágmarka ferðalög, minnka pappírsnotkun, draga úr sóun og stuðla að sjálfbærari vinnubrögðum á öllum sviðum,“ segir Sigríður Rósa Bjarnadóttir, grænstjóri myndarinnar.
„Við vildum minnka kolefnisspor framleiðslunnar og samtímis stuðla að því að geta mælt og staðfest árangurinn hérlendis og erum stolt yfir að það tókst. Árangurinn liggur ekki allur í augum uppi, en var einna sýnilegastur á tökustað þar sem engin einnota plastílát, diskar, glös eða hnífapör voru notuð fyrir mat og drykk. Það var því bæði snyrtilegra á tökustað en oft áður og afgerandi minna sorp að sjá um í lok dags,“ bætir framleiðandinn Anna Guðbjörg Magnúsdóttir við.
„Þetta er i annað sinn sem ég geri græna kvikmynd, hin fyrri fékk Baftavottun erlendis. Ég afar ánægð með að gera aðra græna mynd og að hún sé vottuð á Íslandi,” segir Ásthildur Kjartansdóttir leikstjóri.
Tökur á Fjallinu fóru fram í Hafnarfirði og nærliggjandi hálendi haustið 2023. Framleiðslan naut stuðnings frá Kvikmyndamiðstöð Íslands, RÚV og Menningar-og viðskiptaráðuneytinu.
Anna Guðbjörg Magnúsdóttir framleiðir fyrir Film Partner Iceland ehf. og Rebella Filmworks ehf. Meðframleiðandi er Anders Granström frá LittleBig Productions í Svíþjóð.
Ávinningur fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað
KPMG á Íslandi, þekkingarfyrirtæki á sviðum endurskoðunar og ráðgjafar, var vottunarúttektaraðili og staðfesti að Fjallið uppfyllti öll skilyrði Green Film vottunar.
„Við hjá KPMG erum stolt að hafa tekið þátt í þessu verkefni með Fjallinu. Þetta er merkilegt skref í átt að sjálfbærari kvikmyndagerð og viljum við sérstaklega hrósa Fjallinu fyrir að vera fyrst á Íslandi til að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni,“ segir Lára Portal, sérfræðingur í sjálfbærniráðgjöf hjá KPMG, vottuðum úttektaraðila fyrir Green Film Rating System á Íslandi.
Green Film vottunin er í takt við stefnumörkun Kvikmyndastefnu 2020-2030, sem leggur áherslu á sjálfbærni í kvikmyndagerð.
Í tilkynningu segir enn fremur að með vottun Fjallsins sé Ísland í stöðu til að verða leiðandi í sjálfbærri kvikmyndagerð, en markmiðið er að fleiri verkefni fylgi í kjölfarið. Það muni ekki aðeins bæta umhverfisvitund í greininni heldur einnig styrkja ímynd landsins sem stað nýsköpunar og lista.