Kvikmyndin Hygge! í sýningar á Íslandi
Hygge!, dönsk kvikmynd í leikstjórn Dags Kára, fer í almennar sýningar á Íslandi 21. nóvember.
Myndin segir frá vinahópi sem hittist í kvöldmat og fer í samkvæmisleik sem gengur út á að deila hverju því sem kemur í síma þeirra, skilaboðum og öðru. Ekki líður á löngu þar til leyndarmálin opinberast og þá er hin huggulega kvöldstund í hættu.
Hygge! er byggð á ítölsku kvikmyndinni Perfetti sconosciuti, líkt og íslenska kvikmyndin Villibráð í leikstjórn Elsu Maríu Jakobsdóttur. Myndirnar hafa slegið rækilega í gegn í upprunalöndum sínum. Hygge! var á meðal vinsælustu kvikmynda ársins 2023 í Danmörku og Villibráð var aðsóknarmesta íslenska kvikmynd sama árs á Íslandi.
Hygge! er framleidd af Bylgju Ægisdóttur, Þóri S. Sigurjónssyni, Evu Jakobsen, Mikkel Jersin og Katrin Pors hjá framleiðslufyrirtækinu Snowglobe. Myndin hlaut styrk frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.