Kvikmyndir í forgrunni á stærstu íslensku menningarhátíð í Frakklandi síðan 2004
Íslensk kvikmyndamenning var í öndvegi á Íslensku vikunni – stærstu íslensku menningarhátíðinni sem haldin hefur verið í Frakklandi frá 2004 . Hátíðin fór fram 23.-26. júní í menningarmiðstöðinni L'Entrepot í París, þar sem kynning á bókmenntum, sjónvarpsefni, tónlist og matargerð frá Íslandi fór einnig fram.
Hátíðin er samstarfsverkefni sendiráðs Íslands í París, Íslandsstofu, Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Les Arcs-hátíðarinnar í Frakklandi.
Íslenskar kvikmyndir voru í forgrunni á hátíðinni. Hún hófst með forsýningu á Voluðu landi, eftir Hlyn Pálmason, en fjöldi annarra mynda var einnig á dagskrá, þar á meðal Berdreymi eftir Guðmund Arnar Guðmundsson. Auk þess voru tveir þættir úr Verbúðinni sýndir.
Benedikt Erlingsson var heiðursgestur Íslensku vikunnar. Þrjár kvikmyndir eftir hann voru sýndar á hátíðinni: Kona fer í stríð, Hross í oss og stuttmyndin Takk fyrir hjálpið.
Sérstök áhersla var lögð á höfundarverk íslensk-franska leikstjórans Sólveigar Anspachs (1960-2015). Didda Jónsdóttir, sem lék í fjórum myndum hennar, sagði frá samstarfi þeirra á spurt og svarað sýningu. Dóttir Sólveigar, Clara Lemaire Anspach, sem vinnur að gerð heimildamyndar um móður sína, var einning viðstödd.
Ljósmyndir: ©SerenaPorcherCarli