Um KMÍ
Á döfinni

21.5.2025

Kynning á samnorrænum sjálfbærnistöðlum fyrir kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu

Kvikmyndamiðstöð Íslands kynnir Nordic Ecological Standard (NES) – nýja samnorræna sjálfbærnistaðla fyrir kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu – í Bíó Paradís, þriðjudaginn 27. maí, klukkan 13:00. 

Staðlarnir verða kynntir formlega á öllum Norðurlöndunum síðar í sumar og fer þá í loftið vefur með ítarlegum upplýsingum og eyðublöðum.

Markmiðið að draga verulega úr umhverfisáhrifum framleiðslu

Staðlarnir verða innleiddir frá og með árinu 2026 og þá verður öllum kvikmynda- og sjónvarpsverkefnum sem fá styrk frá opinberum kvikmyndastofnunum á Norðurlöndunum skylt að uppfylla kröfur NES. Á síðari hluta ársins 2025 er stefnt að prufukeyrslu staðlanna í samstarfi við framleiðendur.

NES er byggt á þýskum sjálfbærnistöðlum sem innleiddir voru árið 2023 og hafa verið sérsniðnir að norrænum aðstæðum í samstarfi kvikmyndastofnana allra Norðurlandanna. Markmiðið með innleiðingu NES er að draga verulega úr umhverfisáhrifum í kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu á Norðurlöndunum, styðja við innleiðingu umhverfisvænna starfshátta og efla samkeppnishæfni og sjálfbærni greinarinnar til framtíðar.

Fjallað um sjálfbærni út frá íslenskum aðstæðum

Á kynningarfundinum verða staðlarnir kynntir, aðdragandi þeirra og þróunarferli, rætt um framkvæmd, kröfur og eftirfylgni, og veitt svör við spurningum úr sal.

Fulltrúar USE-SEE, ráðgjafarfyrirtækis á sviði sjálfbærni, munu einnig taka þátt í kynningunni. Þær munu fjalla um sjálfbærni í kvikmyndagerð út frá íslenskum aðstæðum og kynna kolefnisreiknivél Green Producers Club.

Skráning er ekki nauðsynleg – öll áhugasöm velkomin.