Um KMÍ
Á döfinni

10.12.2021

Leiðrétting vegna fréttaflutnings: 5 milljónir í streymisveitu en ekki 510

Vegna fréttaflutnings um stóraukin framlög ríkisins til kvikmyndamála á næsta ári vill Kvikmyndamiðstöð árétta eftirfarandi er snýr að skiptu þeirra fjármuna og framlagi til nýrrar streymisveitu.

Aukning á framlögum til kvikmyndamála til að fylgja eftir ýmsum þáttum nýrrar kvikmyndastefnu nemur 510 milljónum samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2022. Af þeirri upphæð er áætlað að 5 milljónir renni til þróunar á nýrri streymisveitu fyrir íslenskar kvikmyndir. Stærstur hluti aukningarinnar, um 400 m.kr. mun renna til Kvikmyndasjóðs, til að styrkja framleiðslu á íslensku efni bæði fyrir kvikmyndahús og sjónvarp.

Samstarf en ekki samkeppni við einkaaðila

Strax á frumstigum við undirbúning veitunnar átti Kvikmyndamiðstöð samtöl við fulltrúa þeirra sem reka streymisveitur í dag, þeim skýrt frá þeim markmiðum nýrrar kvikmyndastefnu sem lúta að aðgengi að íslenskum kvikmyndaarfi. Eitt af megin markmiðum nýju streymisveitunnar er meðal annars veita almenningi á Íslandi aðgengi að eldra efni, sem ekki er aðgengilegt á íslensku miðlunum nú þegar. Í samtölum Kvikmyndamiðstöðvar við haghafa var undirstrikað að Kvikmyndamiðstöð hafi engar fyrirætlanir um að fara í samkeppni við einkaaðila. Snýr hin nýja streymisveita aðeins að varðveislu og miðlun kvikmyndaarfs þjóðarinnar sem er óaðgengilegur annarsstaðar.

Kvikmyndamiðstöð mun halda áfram að vinna náið með haghöfum kvikmyndagerðar, einkaaðilum jafnt sem opinberum aðilum, með það að markmiði að gera kraftmikla kvikmyndagerð enn betri og er fyrrnefnd aukning á fjárlögum til málaflokksins þýðingarmikið skref á þeirri vegferð.