Um KMÍ
Á döfinni

30.9.2021

Leynilögga er opnunarmyndin á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck

Leynilögga eftir Hannes Þór Halldórsson hefur verið valin sem opnunarmyndin á Norrænum kvikmyndadögum í Lübeck í Þýskalandi. Hátíðin fer fram dagana 3. - 7. nóvember næstkomandi. Fjöldi íslenskra kvikmynda eru sýndar ár hvert á hátíðinni en dagskráin í heild sinni verður birt síðar í október. 

Leynilögga var heimsfrumsýnd á Locarno kvikmyndahátíðinni í ágúst og hefur þaðan af m.a. verið valin til þátttöku á kvikmyndahátíðinni Fantastic Fest í Austin, á BFI kvikmyndahátíðinni í Lundúnum og á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Busan í Suður Kóreu.

Leynilögga er fyrsta leikna kvikmyndin sem Hannes Þór leikstýrir og fjallar myndin um grjótharða ofurlöggu sem er í baráttu við sjálfan sig á sama tíma og hann berst við hættulegustu glæpamenn landsins. Áætluð frumsýning myndarinnar hér á landi er 22. október í Sambíóum.

Leynilögga trailer

Kvikmyndin er skrifuð af Nínu Petersen, Sverri Þór Sverrissyni og Hannesi Þór Halldórssyni. Myndin er framleidd af Lilju Ósk Snorradóttur fyrir Pegasus Pictures og með aðalhlutverk fara Auðunn Blöndal, Egill Einarsson, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Vivian Ólafsdóttir, Sverrir Þór Sverrisson og Björn Hlynur Haraldsson. 

Allar nánari upplýsingar um Norræna kvikmyndadaga í Lübeck má finna á heimasíðu hátíðarinnar.