Ljósbrot og Snerting á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg
Kvikmyndirnar Ljósbrot, í leikstjórn Rúnars Rúnarssonar, og Snerting, í leikstjórn Baltasars Kormáks, verða sýndar á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Gautaborg 2025.
Ljósbrot keppir um Dreka-verðlaunin svonefndu, sem veitt eru bestu norrænu kvikmyndinni á hátíðinni. Verðlaunaféð er 400.000 sænskar krónur. Ljósbrot hefur þegar unnið til fjölda verðlauna og verið sýnd á helstu kvikmyndahátíðum heims, síðan hún var heimsfrumsýnd í Cannes 2024.
https://www.youtube.com/watch?v=wkcirD6MnhY
Snerting verður sýnd í Nordic Light flokki hátíðarinnar. Myndin var frumsýnd síðasta sumar við einkar góðar undirtektir áhorfenda og gagnrýnenda, hér heima og erlendis. Snerting er framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2025 og er á stuttlista til verðlaunanna sem besta alþjóðlega kvikmyndin.
https://www.youtube.com/watch?v=y5fXuZ3ns_c
Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Gautaborg stendur yfir frá 24. janúar - 5. febrúar. Þetta er í 48. sinn sem hátíðin fer fram.