Um KMÍ
Á döfinni

14.6.2024

Ljósbrot valin á kvikmyndahátíðina í Karlovy Vary

Kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, Ljósbrot, hefur verið valin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Karlovy Vary í Tékklandi. Myndin verður sýnd í Horizons-flokki hátíðarinnar, sem fer fram 28. júní til 6. júlí.

Íslenskt kvikmyndagerðarfólk hefur löngum verið áberandi á þessari virtu kvikmyndahátíð. 

Á hverri hátíð stendur European Film Promotion fyrir Future Frames, vettvangi þar sem nýjar myndir ungra og efnilegra leikstjóra eru sýndar. 

Í ár tekur Anna María Jóakimsdóttir-Hutri þátt fyrir hönd Íslands. Stuttmynd hennar verður, Vem ropar för Alvar, verður kynnt þar en aðeins 10 leikstjórar eru valdir til þátttöku og því um mikilvægt tækifæri að ræða.

Í dómnefnd aðalverðlauna hátíðarinnar í ár situr svo rithöfundurinn Sjón.

Hann hefur síðustu ár vakið athygli sem handritshöfundur, en hann skrifaði handrit kvikmyndanna Dýrsins í leikstjórn Valdimars Jóhannssonar og Northman í leikstjórn Roberts Eggers. 

Um þessar mundir vinnur hann að kvikmyndaaðlögun leikverksins Hamlet ásamt leikstjóranum Ali Abbasi.


Ljósbrot á siglingu

Ljósbrot var heimsfrumsýnd í maí á kvikmyndahátíðinni í Cannes, þar sem hún var opnunarmynd Un Certain Regard. Myndin gerist á fallegum vordegi þegar líf ungrar konu snýst á hliðina á svipstundu. Upphefst þá rússíbanareið tilfinninga þar sem mörkin milli hláturs og gráts, fegurðar og sorgar, verða stundum óskýr.

Myndin hlaut frábærar móttökur eftir heimsfrumsýninguna í Cannes. Gagnrýnendur helstu miðla, svo sem Hollywood Reporter , Variety og Screen Daily , voru sammála um að í henni takist Rúnari Rúnarssyni ásamt ungum og hæfileikaríkum leikhópi að draga upp mynd af djúpstæðri sorg á áhrifaríkan en lágstemmdan hátt. Ljósbrot var að mati Screen Daily á meðal kvikmynda sem stóðu sérstaklega upp úr á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2024.