Um KMÍ
Á döfinni

3.9.2024

Ljósbrot valin á eina stærstu kvikmyndahátíð Asíu

Kvikmyndin Ljósbrot í leikstjórn Rúnars Rúnarssonar hefur verið valin á kvikmyndahátíðina í Busan í Suður-Kóreu, sem er ein stærsta og mikilvægasta kvikmyndahátíð Asíu.

Ljósbrot var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrr í vor og verður sýnd á einni stærstu kvikmyndahátíð heims, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto í september. „Á fótboltamáli væri þetta kölluð þrenna reikna ég með,“ segir Rúnar. „Við erum einkar stolt og þakklát okkar fólki, sem gerði þetta mögulegt.”

Myndin hefur að auki unnið fimm alþjóðleg kvikmyndaverðlaun síðan hún opnaði Un Certain Regard á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Það er því óhætt að segja að Ljósbrot hafi farið sigurför um heiminn.

Myndin var frumsýnd á Íslandi í síðustu viku og var í fyrsta sæti aðsóknarlista FRÍSK eftir frumsýningarhelgina.

https://www.youtube.com/watch?v=iTWqzppqh8Q

Með aðalhlutverk fara, Elín Hall, Katla Njálsdóttir, Mikael Kaaber, Baldur Einarsson, Gunnar Kristjánsson og Ágúst Wigum.

Ljósbrot gerist á fallegum vordegi þegar líf Unu snýst á hliðina á svipstundu og upphefst rússibanaferð tilfinninga. Þar sem mörkin milli hláturs og gráturs, fegurðar og sorgar, verða stundum óskýr.