Ljósbrot valin besta norræna kvikmyndin á Gautaborgarhátíðinni
Kvikmyndin Ljósbrot eftir Rúnar Rúnarsson hlaut í gær Drekaverðlaunin, aðalverðlaun Kvikmyndahátíðarinnar í Gautaborg sem besta norræna mynd ársins. Verðlaunaféð nemur 400.000 þúsund sænskum krónum, eða um 5 milljónum íslenskra króna.
Í umsögn dómnefndar segir meðal annars að myndin sé meistaralega samsett með fullkomnum hópi ungra leikara. Leikstjórinn meðhöndli umfjöllunarefni myndarinnar, sorgina, á óvæntan og upplífgandi hátt.
Kvikmyndahátíðin í Gautaborg er ein helsta kvikmyndahátíð Norðurlandanna. Árlega sækja á annað þúsund fagaðilar kvikmyndahátíðina og gestir á sýningum eru á annað hundrað þúsund talsins.
Rúnar Rúnarsson leikstjóri var veðurtepptur á Íslandi þegar lokaathöfn hátíðarinnar fór fram. Framleiðandi Ljósbrots, Heather Millard, veitti verðlaununum viðtöku.
Heather Millard, framleiðandi Ljósbrots, tók á móti verðlaununum í Gautaborg.
Ljósbrot hefur notið einstakrar velgengni síðan hún var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2024, en þetta eru fjórtándu alþjóðlegu verðlaunin sem hún hlýtur.
Með aðalhlutverk í Ljósbroti fara Elín Hall, Katla Njálsdóttir, Mikael Kaaber, Baldur Einarsson, Gunnar Kristjánsson og Ágúst Wigum.