Um KMÍ
Á döfinni

10.7.2025

Ljósvíkingar og Topp 10 möst sýndar á norsku alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Haugesund

Íslensku kvikmyndirnar Ljósvíkingar og Topp 10 möst verða sýndar á norsku alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Haugesund sem fer fram 16.-22. ágúst.

Ljósvíkingar, í leikstjórn Snævars Sölvasonar, fjallar um æskuvinina Hjalta og Björn sem reka fiskveitingastað í sínum heimabæ yfir sumartímann. Þá dreymir um að geta haft opið allt árið um kring og þegar óvænt tækifæri þess efnis bankar upp á, tilkynnir Björn vini sínum að hún sé trans kona og muni framvegis heita Birna. Þessar breytingar reyna á vináttuna og þurfa þau bæði að horfast í augu við lífið á nýjan hátt til þess að bjarga því sem mestu máli skiptir.

Topp 10 möst, í leikstjórn Ólafar Birnu Torfadóttur, fjallar um lífsleiða miðaldra konu og hortugt flóttafangakvendi sem ferðast saman þvert yfir landið á vit ævintýranna meðan þær enn geta.

Norska alþjóðlega kvikmyndahátíðin er fyrsta kvikmyndahátíðin sem stofnuð var í Noregi. Saga hátíðarinnar nær aftur til ársins 1973 en hún var upphaflega farandhátíð allt til ársins 1986. Eftir að hafa heimsótt tíu norskar borgir festi hátíðin loks sess í Hugesund.