Um KMÍ
Á döfinni

16.8.2023

Margrómaðir leiðbeinendur á vinnusmiðju Skjaldborgar fyrir íslensk heimildaverk – opið fyrir umsóknir

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda stendur að þróunar- og pitch-kynningarvinnusmiðju í tveimur hlutum fyrir íslensk heimildaverk veturinn 2023-2024. Aðalleiðbeinendur eru Gitte Hansen og Mikael Opstrup, margrómaðir ráðgjafar á sviði heimildamynda, auk klipparans Jespers Osmund. Fyrsti hluti vinnusmiðjunnar fer fram í Reykjavík dagana 17.-19. október en seinni hlutinn fer fram með aðstoð fjarfundarbúnaðar á fyrsta ársfjórðungi 2024. Ætlast er til að þátttakendur vinni áfram í sínum verkefnum og kynningarefni á milli vinnusmiðja. Æskilegt er að teymi þátttakenda samanstandi af leikstjóra og framleiðanda en einnig klippara ef svo á við.

Umsóknir berist á tölvupóstfangið skjaldborg@skjaldborg.is með titlinum Doc Iceland. Umsóknarfrestur er 31. ágúst 2023.

Umsókn skal innihalda tveggja blaðsíðna kynningu á ensku með vinnutitli verkefnis, stuttum efnistökum, stöðu verkefnis, áætlaðri lengd, áætluðu útgáfuári, áætluðum kostnaði og fjármögnun auk upplýsinga um leikstjóra, framleiðanda, framleiðslufyrirtæki, ásamt tölvupóstföngum og símanúmerum viðkomandi og stuttu yfirliti yfir fyrri verk. Ennfremur er óskað eftir hlekk á stiklu og/eða valdri/völdum senum.

Yfirgripsmikil reynsla í þróun heimildamynda

Mikael og Gitte hafa yfirgripsmikla reynslu í þróun heimildamynda og eru jafnframt hringborðsstjórnendur Nordisk Panorama Forum til margra ára. Auk þess vinna þau víða um heim á vettvangi heimildamyndafagsins, meðal annars á fjármögnunarráðstefnum á borð við IDFA Forum og CPH:DOX Forum og við námskeiðahald hjá IDFAcademy. Þau standa fyrir vinnusmiðjum víða um heim og starfa við ráðgjöf og dóm- og valnefndir fyrir kvikmyndahátíðir og ráðstefnur. Jesper er klippari og ráðgjafi en eftir hann liggja um hundrað verðlaunaðra heimildamyndatitla, auk þess að starfa sem klippiráðgjafi við vinnustofur á borð við NORTH PITCH 'Below Zero', Thessaloniki IDF og DocLisboa og leiðbeinandi hjá IDFAcademy og víðar.

Skarpari fókus og betri þekking

Doc Iceland vinnustofan er miðuð að því að skerpa á kjarna efnistaka verkefna og frásagnarmáta þeirra. Þátttakendur þjálfa kynningarhæfileika sína og vinna með framsetningu á verkefnum sínum. Teymin njóta endurgjafar jafnt frá leiðbeinendum sem og kollegum sínum. Ennfremur fjalla leiðbeinendur um helstu norrænu og alþjóðlegu fjámögnunarmessurnar og halda fyrirlestra til innblásturs þáttakendum. Aðstandendur verkefna ættu að lokinni vinnustofu að vera með sterkari kynningarstiklu, skarpari fókus á nálgun efnistaka og betri þekkingu á helstu fjármögnunarmessum.

Verkefni sem eru gild til þátttöku geta verið á mismunandi stigum þróunar eða framleiðslu. Verkefni sem þegar hafa hlotið þróunar- og framleiðslustyrki frá Kvikmyndamiðstöð Íslands fá forgang en 4-6 verkefni verða valin til þátttöku. Vinnustofan er þátttakendum að kostnaðarlausu en greitt er fyrir sameiginlega hádegisverði. Vinnustofan er studd af Kvikmyndamiðstöð Íslands og Íslandsstofu.

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda hefur frá stofnun árið 2007 haft það að markmiði að stuðla að eflingu heimildamyndafagsins á Íslandi. Vinnusmiðjan er mikilvægur liður í eflingu fræðslustarfs hátíðarinnar sem er í stöðugri þróun. Kjarni starfsins er hin árlega hátíð íslenskra heimildamynda um hvítasunnuhelgina á Patreksfirði.

Áhugasamir geta fylgst með hátíðinni á samfélagsmiðlum, Facebook og Instagram.