MEDIA styrkir til kvikmynda og tölvuleikja 2024
Á árinu 2024 hafa Creative Europe MEDIA styrkir til kvikmynda og tölvuleikja numið 1.6 milljón evra eða um 240 milljónir íslenskra króna.
Á árinu hafa 19 umsóknir verið sendar inn frá Íslandi í MEDIA, kvikmyndahluta Creative Europe. Átta umsóknir voru sendar í sjónvarpssjóðinn á árinu og fengu þrjár þeirra styrki að upphæð hálf milljón evra hver.
Sagafilm fékk úthlutað 500 þúsund evrum, til framleiðslu á spennuþáttaröðinni Teikn (Signals). Þáttaröðin fjallar um dularfullar og hættulegar netárásir sem skekja grunnstoðir íslensks samfélags.
Glassriver fékk 500 þúsund evrur í styrk til framleiðslu á leiknu þáttaröðinni Flóðið (Avalanche). Veðurfræðingur með stormasama fortíð, neyðist til að snúa aftur í sinn heimabæ þegar gríðarstór snjóflóð ógna lífi bæjarbúa og leiða í ljós gömul leyndarmál bæjarins. Þáttaröðin byggir á verstu náttúruhamförum Íslands og fjallar um sorgina sem þessi harmleikur skildi eftir sig og þjóðareininguna sem hann kveikti.
Sameinuðu íslensku kvikmyndaveldin fengu 500 þúsund evrur fyrir þáttaröðina Reykjavík Fusion. Umfjöllunarefni: Matreiðslumeistarinn Jónas kemur úr fangelsi og reynir að vinna aftur fyrrum unnustu og börn. Dyr samfélagsins standa honum læstar og í örvæntingu stofnar hann veitingastað með félaga sínum úr fangelsi gegn loforði um að þvætta pening þar í gegn. Sú ákvörðun stofnar fljótt skilorði hans, lífi og fjölskyldu í hættu.
Einnig fékk fyrirtækið tvo samþróunarstyrki vegna tölvuleikja: verkefnið Volcano sem er leitt af Króötum og verkefni Wool með Serbum.
Fyrirtækið Huldufugl sendi inn fyrstu íslensku umsóknina í tölvuleikja og sýndarveruleikasjóð MEDIA og fékk framleiðslustyrk. Mikil ánægja er með þennan fyrsta styrk að upphæð 56 þúsund evra (um 8,4 milljónir kr.) fyrir þróun á sýndarveruleika-verkinu Fallax VR .
Kvikmyndahátíðin RIFF fékk styrk að upphæð 45 þúsund evra (um 6,8 milljónir kr.) fyrir 2024
Samtals gerir þetta 1.601.000 evra eða um 240 milljónir íslenskra króna til MEDIA verkefna.