Um KMÍ
Á döfinni

5.5.2020

Erlend kvikmyndaver og framleiðendur sýna Íslandi mikinn áhuga

Frá því að Ted Sarandos, yfirmaður hjá Netflix, greindi frá því að efnisveitan væri með framleiðslu í tveimur löndum, Suður Kóreu og Íslandi, hafa erlend kvikmyndaver og framleiðendur sýnt Íslandi aukinn áhuga. Framleiðsla Netflix sem um er að ræða er sjónvarpsþáttaserían Katla, undir leikstjórn Baltasars Kormáks, og er í höndum framleiðslufyrirtækisins RVK Studios.

Einar Hansen Tómasson hjá Film in Iceland greinir frá því í viðtali við tímaritið Los Angeles Times að erlendar fyrirspurnir um tökur á Íslandi hafi aukist í miklum mæli. Að sökum kórónuveirufaraldursins hefur framleiðsla kvikmynda staðið í stað um allan heim og kvikmyndagerðarmenn bíða eftir því að hefja störf aftur.  

Þann 4. maí jókst gildandi takmörkun á samkomum úr 20 manns í 50 manns. Öllum erlendum ferðamönnum sem koma hingað til lands er gert að fara í tveggja vikna sóttkví. Sú regla verður í gildi til 15. maí, að minnsta kosti, en í samráði við sóttvarnarlækni er verið að leita leiða til að opna fyrir erlend tökulið. 

Þá ritaði Ted Sarandos grein þann 4. maí sem birt var í Los Angeles Times þar sem hann útskýrir hvernig framleiðsla á verkefnum Netflix hefur farið fram í ýmsum löndum. Þar tiltekur hann sérstaklega tökur á þáttaröðinni Kötlu. Á tökustað Kötlu eru allir skimaðir fyrir veirunni og er hiti starfsliðs mældur á hverjum morgni. Einnig þarf að fara eftir ströngum reglum og læknar á svæðinu ef einhver skyldi finna fyrir einkennum.