My Year of Dicks hlýtur sérstaka viðurkenningu dómnefndar á kvikmyndahátíðinni SXSW
Teiknimyndaserían My Year of Dicks, í leikstjórn Söru Gunnarsdóttur, hlaut sérstaka viðurkenningu dómnefndar í flokknum „Episodic Pilot Competition“ á kvikmyndahátíðinni SXSW, eða South by Southwest. Hátíðin fer nú fram í Austin, Texas frá 11. til 20. mars.
Fyrsti þáttur var heimsfrumsýndur á hátíðinni og verður serían frumsýnd á Íslandi á Stockfish kvikmyndahátíðinni sem, fer fram frá 24. mars - 3. apríl í Bíó Paradís. Handritshöfundur My Year of Dicks er Pamela Ribon sem mun taka þátt ásamt Söru í spjallborði um nútímahandritsgerð á Bransadögum á Selfossi.
My Year of Dicks fjallar um Pam, fimmtán ára stelpu í Houston á tíunda áratug síðustu aldar, sem hefur einsett sér að missa meydóminn. Hún lifir og hrærist mitt á milli raunveruleikan og fantasíu með því að reyna kanna mismunandi týpur af strákum eins og gothara, hjólabrettakappa, indie-kvikmyndasnobbhana og fleiri, án þess að vera sett í straff af foreldrum sínum. Serían er skrifuð af Pamela Ribon og er aðlögun upp úr endurminningarbók hennar.
Nánari upplýsingar um South by Southwest hátíðina má finna á heimasíðu hennar.