Um KMÍ
Á döfinni

1.6.2023

Mynd um falda fordóma vann verðlaun Kvikmyndaskóla Íslands

Þrítugasta starfsvetri Kvikmyndaskóla Íslands lauk með útskrift 29 nemenda og verðlaunaathöfn þann 27. maí.

Aðalverðlaun KVÍ eru Bjarkinn og í ár féllu þau í skaut Óskars Hörpusonar fyrir stuttmyndina Leið 7. Myndin fjallar í stuttu máli um strætóferð Íslendings sem verður fyrir stigvaxandi fordómum, en nær góðu talsambandi við litla stelpu og gefur áhorfendum von um bjarta framtíð.

Dómnefnd skipuðu Margrét Jónasdóttir frá RÚV, Bjarni Felix Bjarnason kvikmyndatökumaður og Þorkell S. Harðarson leikstjóri og framleiðandi.

„Handrit, leikur, úrvinnsla og tæknivinna gengur allt upp í þessari fallegu mynd um óvænta vináttu um borð í strætó,“ segir í umsögn dómnefndar. „Þó efnið sé ekki á stærðargráðu heimsendamynda er ekki dauður punktur í myndinni. Höfundur stenst það erfiða próf að hafa mynd af þessu tagi ekki of langa - myndin er í fullkomnu samræmi við efnistök og innihald.“

Aðrar myndir sem fengu verðlaun á þessu ári voru Skýjaborgin eftir Magdalenu Ólafsdóttur, Dansandi á rósum eftir Önnu Birnu Jakobsdóttur, Í dimmri fegurð eftir Arnór Rúnarsson og Fjölskyldan mín eftir Sylvíu Rún Hálfdánardóttur.