Napóleonsskjölin og Á ferð með mömmu á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Haugasundi
Napóleonsskjölin og Á ferð með mömmu verða sýndar á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Haugasundi í Noregi, sem stendur yfir 19.-25. ágúst. Samhliða almennum sýningum á hátíðinni verða íslenskar kvikmyndir kynntar á lokuðum markaðssýningum og samframleiðslumarkaði.
Napóleonsskjölin var frumsýnd á Íslandi í febrúar 2023. Myndin byggist á samnefndri skáldsögu eftir Arnald Indriðason og segir frá Kristínu, metnaðarfullum lögfræðingi sem dregst inn í óvænta atburðarás þegar bróðir hennar rambar fram á flugvélaflak úr seinni heimsstyrjöldinni á Vatnajökli. Leikstjóri myndarinnar er Óskar Þór Axelsson, handrit er eftir Martein Þórsson. Framleiðendur eru Tinna Proppé, Hilmar Sigurðsson, Dirk Schweitser og Anita Elsani.
Á ferð með mömmu var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Tallinn í Eistlandi í nóvember 2022, þar sem hún hlaut aðalverðlaun hátíðarinnar. Myndin segir frá manni sem tekur sér ferð á hendur þvert yfir landið með uppáklætt lík móður sinnar í aftursætinu til að heiðra hennar síðustu ósk. Hilmar Oddsson leikstýrir og skrifar handrit. Framleiðandi er Hlín Jóhannesdóttir hjá Ursus Parvus.
Tilverur, frumraun Ninnu Pálmadóttur, og Missir, í leikstjórn Alexanders Ergis Magnússonar, verða sýndar á markaði hátíðarinnar.
Tilverur verður heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto í september. Myndin segir frá manni sem flytur til borgarinnar tilneyddur þegar ríkið tekur jörð hans yfir til virkjunarframkvæmda. Þar kynnist hann blaðburðardrengnum Ara, sem markar upphafið að umbreytingum á lífum þeira beggja.
Missir byggist á samnefndri nóvellu Guðbergs Bergssonar. Myndin fjallar um 85 ára gamlan mann sem nýlega er orðinn ekkill. Á hverjum morgni vaknar hann og starir á duftkerið með jarðneskum leifum eiginkonu sinnar. Hann áræðir að lokum að hræra ösku konu sinnar í bolla með heitu vatni. Í sömu andrá og hann drekkur úr bollanum birtist hún honum og þau deila minningum úr lífi sínu saman.
City of Lava, kvikmyndaverkefni Erlings Óttars Thoroddsen, verður kynnt gagnvart fagfólki í kvikmyndageiranum á samframleiðslumarkaði hátíðarinnar. Myndin segir frá Elmari Arnarssyni, bókmenntafræðingi, sem hefur ávallt staðið í þeirri trú að besti vinur hans hafi verið myrtur fyrir 30 árum. Þegar honum berast nýjar upplýsingar um hvernig dauða hans bar að umturnast líf hans.