Um KMÍ
Á döfinni

23.9.2022

Natatorium vinnur til verðlauna á Finnish Film Affair

Kvikmyndin Natatorium, eftir Helenu Stefáns- Magneudóttur, hlýtur verðlaun sem besta norræna verkefnið á bransadögum Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Helsinki, The Finnish Film Affair. Verðlaunaféð er €3.000.

Framleiðandi er Sunna Guðnadóttir, hjá framleiðslufyrirtækinu Bjartsýn Films, og meðframleiðendur eru Julia Elomäki, hjá Tekele Productions, og Heather Millard, hjá Silfurskjá. Myndin er í framleiðslu en stefnt er að því að hún verði tilbúin vorið 2023.

„Þetta er forvitnilegt verkefni sem við viljum gjarnan fylgjast með og kanna betur,“ segir dómnefndin. „Þrátt fyrir að myndin sé nýbyrjuð í tökum þá ber hún þegar einkennandi yfirbragð og rödd sem greip athygli okkar.“

Natatorium segir frá ungri stúlku sem dvelur hjá ömmu sinni og afa í borginni á meðan hún þreytir inntökupróf í listhóp. Þegar fjölskyldan, sem hefur ekki hist í langan tíma, kemur saman til að fagna inntöku hennar í hópinn koma ljót fjölskylduleyndarmál upp á yfirborðið og kvöldið endar með hræðilegum harmleik.

The Finnish Film Affair eru bransadagar Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Helsinki, en Nordic Selection hluti viðburðarins leggur áherslu á nýja og upprennandi leikstjóra frá Norðurlöndunum sem eru að vinna í sinni fyrstu eða annari kvikmynd í fullri lengd.