Um KMÍ
Á döfinni

14.6.2022

Nefndarálit um frumvarp um hækkun endurgreiðslna

Frumvarp þess efnis að hækka tímabundna endurgreiðslu af framleiðslukostnaði til kvikmyndaframleiðanda var samþykkt af ríkisstjórn Íslands 13. maí.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hafði áður kynnt fyrir ríkisstjórninni drög að frumvarpinu þar sem lagt er til að verkefni sem uppfylla ákveðin skilyrði og teljast stærri verkefni og til lengri tíma njóti 35% hlutfalls, í stað 25%, endurgreiðslu af framleiðslukostnaði.

Nefndaráliti með breytingartillögu var skilað 13. júní. Þar kemur fram að nefndin telji það engum vafa undirorpið að endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi leiði af sér jákvæð hagræn áhrif og ávinning fyrir íslenskt samfélag.

„Nefndin telur mikilvægt að stjórnvöld leggi áherslu á að efla alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi fyrir framleiðslu kvikmynda- og sjónvarpsefnis enda séu af því bæði hagræn áhrif og ávinningur fyrir íslenskt samfélag. Hreyfimyndaefni af íslensku landslagi laðar að ferðamenn og kemur m.a. fram í könnun Ferðamálastofu frá september 2020 að 39% þeirra sem svöruðu sögðu að íslenskt landslag í hreyfimyndaefni, þ.e. kvikmyndum, sjónvarpsþáttum og tónlistarmyndböndum, hefði m.a. haft áhrif á val á áfangastað.“

Enn fremur segir þar að kvikmyndagerð hafi þróast hratt á Íslandi í kjölfar þess að endurgreiðslukerfið var sett á laggirnar. „Það hefur stuðlað að uppbyggingu fagþekkingar innan kvikmyndageirans, m.a. með komu alþjóðlegs kvikmyndagerðarfólks, og með nýrri tækni og byggingu kvikmyndavera á Íslandi gefast tækifæri til frekari vaxtar og atvinnusköpunar. Fyrir nefndinni var rætt um að endurgreiðslukerfið þyki gott, það sé skýrt og skilvirkt, og þjóni bæði innlendum og erlendum kvikmyndaframleiðendum, en bent var á að það þurfi að laða til landsins stærri verkefni.“

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingartillögu. Breytingartillögur nefndarinnar snúa að notkun hugtaka og orðalagi og hins vegar breytingar á einstökum greinum. Þar er til að mynda lagt til að lágmark framleiðslukostnaðar, sem fellur til hér á landi við framleiðslu kvikmyndar eða sjónvarpsefnis verði 350 millj. kr. í stað 200 millj. kr. eins og lagt er til í frumvarpinu.

Nefndarálit vegna frumvarpsins má finna á vef Alþingis.