Um KMÍ
Á döfinni

8.8.2025

Nordic NEST hleypt af stokkunum í samstarfi MOIN, FFA og The Five Nordics

Nordic Nest er nýtt samstarf þýskra og norrænna kvikmyndasjóða og -stofnana. Á næstu mánuðum koma framleiðendur og handritshöfundar frá Þýskalandi og Norðurlöndunum saman til að vinna að nýjum hugmyndum að kvikmyndum og leiknu sjónvarpsefni. Bestu verkefnin geta hlotið allt að 80.000 evrur í þróunarstyrki.

Nordic NEST er samstarfsverkefni MOIN Film Fund Hamburg Schleswig-Holstein og The Five Nordics – samtaka kvikmyndastofnana á Norðurlöndum. Filmförderungsanstalt (FFA) tekur einnig þátt í samstarfinu. Upphafsfundurinn í Hamborg verður skipulagður í samstarfi við samtök þýskra kvikmyndaframleiðenda (Produktionsallianz Werbung).

Hryggjarstykkið í Nordic NEST er fimm daga vinnusmiðja, NEST Space, sem fer fram við strendur Eystrasalts í Schleswig-Holstein. Tíu reyndir handritshöfundar – helmingur frá Þýskalandi og helmingur frá Norðurlöndunum – koma þar saman í janúar 2026 til að þróa ný verkefni. NEST Space er í umsjón nýstárlegrar handritsþróunarstofnunar í Evrópu sem nefnist Le Groupe Ouest.

Með Nordic NEST er stigið nýtt skref í alþjóðlegri samþróun handrita og grunnur lagður að samframleiðslum milli Þýskalands og Norðurlandanna.

Nordic Nest: Yfirlit

Haustið 2025: fyrsta skref tekið á kvikmyndahátíðinni í Hamborg

60 framleiðendur (30 frá Þýskalandi og 30 frá Norðurlöndunum) koma saman í fyrsta sinn á tengslamyndunarviðburði í Hamborg sem felur meðal annars í sér meistaranámskeið með Le Groupe Ouest. Aðeins framleiðendur sem hafa að minnsta kosti tvær alþjóðlegar leiknar samframleiðslur að baki (kvikmyndir eða sjónvarpsefni), sem hafa verið fullkláraðar og frumsýndar, geta sótt um.

Janúar 2026: Nordic NEST Space + Göteborg Film Festival

Snemma í janúar 2026 taka fimm þýskir og fimm norrænir handritshöfundar – hver með að minnsta kosti tvær frumsýndar kvikmyndir eða sjónvarpsþætti á ferilskránni – þátt í Nordic NEST Space við Eystrasaltströnd Schleswig-Holstein. Að því loknu hitta þeir tuttugu valda framleiðendur á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg 2026. Fyrir hvert verkefni sem sameinar þýskt og norrænt framleiðslufyrirtæki í tengslamyndunaratburðinum mun MOIN Film Fund veita sjálfkrafa allt að 20.000 evrur í þróunarstyrk til vinnslu ítarlegs söguþráðar (treatment).

Framhaldsstig: styrkveitingar til þriggja verkefna

Eftir þróunarstigið fá þrjú verkefni frekari styrkveitingu, allt að 60.000 evrur fyrir hvert verkefni.

Haust 2026: Verk í vinnslu á kvikmyndahátíðinni í Hamborg

Hringurinn þrengist á kvikmyndahátíðinni í Hamborg 2026, þar sem verkefnin verða kynnt gagnvart alþjóðlegum markaðsaðilum.

Nordic NEST er skipulagt af Paulina Toenne hjá MOIN Film Fund.

Opnað fyrir umsóknir framleiðenda

Opnað hefur verið fyrir umsóknir fyrir framleiðendur á vef MOIN Film Fund.

Umsóknarfrestur er til 27. ágúst 2025, 11:59 (CET). Athugið að aðeins framleiðendur sem hafa að minnsta kosti tvær alþjóðlegar leiknar samframleiðslur að baki (kvikmyndir eða sjónvarpsefni), sem hafa verið fullkláraðar og frumsýndar, geta sótt um.

Opnað verður fyrir umsóknir handritshöfunda í október.


Um MOIN Filmfond

MOIN stendur fyrir Moving Images North. MOIN Filmfond Hamburg Schleswig-Holstein styrkir kvikmyndagerð, hágæðasjónvarpsefni og nýstárleg hljóð- og myndverk. Fjárheimildir sjóðsins nema árlega um 21 milljón evra og styrkir hann kvikmyndagerð á öllum stigum framleiðslu, frá hugmynd til fullbúinnar kvikmyndar. Markmið hans er að efla svæðisbundna kvikmyndagerð og bjóða kvikmyndagerðarmönnum hvaðanæva að úr heiminum velkomna til að framleiða verk sín á svæðinu milli Norðursjávar og Eystrasalts.

Um FFA

Filmförderungsanstalt (FFA) er ríkisstofnun Þýskalands sem styður öll hagsmunamál sem tengjast þýskri kvikmyndagerð. FFA veitir styrki til leikinna kvikmynda á öllum stigum framleiðslu. Auk þess styður hún við kvikmyndahús, varðveislu þýskrar kvikmyndaarfleifðar, kynningu á þýskum kvikmyndum erlendis og kvikmyndamenntun. FFA safnar og greinir reglulega helstu markaðsgögn tengd kvikmyndagerð í Þýskalandi. FFA vinnur einnig með öðrum evrópskum fjármögnunaraðilum til að styðja þróun samframleiðslna.

Um The Five Nordics

The Five Nordics (áður Scandinavian Films) eru samtök kvikmyndastofnanna á Norðurlöndunum. Markmið samtakanna er að vinna saman að kynningu norrænna kvikmynda, miðla þekkingu og styðja við sjálfbæra þróun kvikmyndaiðnaðarins.

Um samtök þýskra framleiðenda
Félagasamtök þýskra framleiðenda eru helsti fulltrúi framleiðslufyrirtækja í Þýskalandi, með um 375 félagsmenn á sviði teiknimynda, heimildamynda, sjónvarpsefnis, kvikmynda og auglýsinga. Þau gæta hagsmuna framleiðenda gagnvart stjórnvöldum, dreifingaraðilum, samningsaðilum og öðrum lykilaðilum í miðla- og menningargeiranum, bæði á landsvísu og alþjóðavísu.