Um KMÍ
Á döfinni

25.8.2023

Íslendingar á Nordic Talents

Anton Máni Svansson, framleiðandi hjá Join Motion Pictures, situr í dómnefnd Nordic Talents-keppninnar í ár, þar sem nýútskrifaðir kvikmyndanemar kynna verk sín fyrir fagfólki í kvikmyndageiranum. 

Með Antoni í dómnefnd sitja Maria Ekehovd, framleiðandi hjá Mer Film, Matti Paunio, framleiðslustjóri hjá finnsku kvikmyndastofnuninni, Neil Peplo, stjórnandi London Film School, og Lonne Scherfig, handritshöfundur, leikstjóri og framleiðandi.

Nordic Talents fer fram á vegum Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins og Danska kvikmyndaskólans. Tilgangurinn með viðburðinum er að skapa vettvang þar sem upprennandi kvikmyndagerðarfólki býðst tækifæri til að styrkja tengslanet meðal fagfólks á Norðurlöndum.

Fimmtán verkefni taka þátt í Nordic Talents í ár. Þar á meðal er verkefni Angelico Ruffier, leikstjóra, og Brynhildar Þórarinsdóttur, framleiðanda, Jag har ett ansikte för tt bli älskad/A Face to Be Loved. Brynhildur útskrifaðist nýverið með meistaragráðu í framleiðslu frá Stokkhólmsháskóla.

Verðlaunafé er 250.000 norskar krónur og 50.000 norskar krónur fyrir sérstaka viðurkenningu. Meðal verðlaunahafa fyrri ára eru Hlynur Pálmason (Vetrarbræður) og Rúnar Rúnarsson (Eldfjall).

Nordic Talents fer fram 6.-7. september í Kaupmannahöfn.