Um KMÍ
Á döfinni

2.11.2022

Northern Wave Film Festival haldin í nóvember

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Northern Wave Film Festival fer fram í fjórtánda sinn helgina 11.-13. nóvember á Snæfellsnesi. Sýndar verða stuttmyndir hvaðanæva að úr heiminum auk íslenskra tónlistarmyndbanda og má nú sjá dagskrána í heild sinni á vef hátíðarinnar.

Sýningarnar fara fram í Frystiklefanum á Rifi annars vegar og í sundlauginni í Ólafsvík hins vegar. Einnig verða viðtöl tekin við valda leikstjóra eftir sýningar og boðið verður upp á meistaraspjall með Einari Snorra kvikmyndagerðarmanni.

Í tengslum við hátíðina verður haldin tveggja daga vinnustofa fyrir norrænar kvikmyndagerðarkonur, 21 talsins. Löndin sem taka þátt eru Grænland, Færeyjar, Ísland, Svíþjóð, Noregur, Danmörk og Finnland og eru tveir þátttakendur frá hverju landi og einn leiðbeinandi. Verkefnið gengur út á að fagkonur leiðbeini þátttakendum við að taka sín fyrstu skref í kvikmyndagerð og styrkja tengslanetið.

Þar að auki verður boðið upp á sérstaka dagskrá fyrir börn þar sem barnamyndir verða sýndar í sundlauginni, stuttmyndanámskeið haldið með Þóreyju Mjallhvíti og hægt verður að föndra sín eigin kvikmyndaplaköt alla helgina.

Einnig verður boðið upp á tónleika með Emmsjé Gauta sem í Frystiklefanum laugardagskvöldið 12. nóvember.

Ekki er rukkað inn á viðburði hátíðarinnar, en greiða þarf hefðbundið gjald í sundlaugina.