Um KMÍ
Á döfinni

25.10.2023

Ný alþjóðleg kvikmyndahátíð á Akureyri

Stuttmyndahátíðin Northern Lights Fantastic Film Festival fer fram í fyrsta sinn á Akureyri 26.-29. október.

Hátíðin er þematengd með áherslu á fantasíur, hrollvekjur og vísindaskáldskap. Um 48 stuttmyndir eru á dagskrá en auk kvikmyndasýninga verða haldnir viðburðir fyrir kvikmyndagerðarfólk með það markmið að hvetja höfunda kvikmyndaverka til að sækja innblástur í íslenskan þjóðsagnaarf.

Laugardaginn 28. október fara til að mynda fram pallborðsumræður þar sem spurningunni „hvers vegna er þjóðsagnaarfurinn vannýttur í íslenskum kvikmyndaverkum?“ er velt upp. Christopher Newman, framleiðandi, Inga Lísa Middleton, listakona og leikstjóri, og Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði, ræða þar málið.

Einnig má nefna meistaraspjall með Hilmari Erni Hilmarssyni, tónskáldi, Kristínu Björk Kristjánsdóttur (Kira Kira), tónskáldi, og Kjartani Kjartanssyni, hljóðhönnuði. Þar verður rætt um tónlist og hljóðhönnun í kvikmyndaverkum sem vinna með hið fjarstæðukennda og fer það fram föstudaginn 27. október.

Aðstandendur hátíðarinnar eru Ársæll Sigurlaugar Níelsson, leikari og framleiðandi, Brynja Baldursdóttir, myndlistarkona og hönnuður, og Marzibil Sæmundardóttir, kvikmyndagerðarkona.