Um KMÍ
Á döfinni

3.2.2025

Ný framkvæmdastjórn Stockfish Film Festival

Breytingar hafa orðið á framkvæmdastjórn Stockfish kvikmyndahátíðarinnar.

Dögg Mósesdóttir kvikmyndagerðarkona hefur tekið við taumunum og aðstoðarframkvæmdastjórn er í höndum Höllu Þórlaugar Óskarsdóttur.

Dögg er leikstjóri, framleiðandi og handritshöfundur. Í tilkynningu frá Stockfish segir að verkefni hennar nái yfir breiðan vettvang kvikmyndalistarinnar. Hún hafi unnið að leiknu efni, heimildamyndum, tónlistarmyndböndum og fleiru. Dögg er eigandi framleiðslufyrirtækisins Northern Wave Productions og komið að starfi WIFT alþjóðlegu félagi kvenna í kvikmynda- og sjónvarpsþáttagerðá Íslandi, þar sem hún hefur meðal annars verið formaður stjórnar. Hún stofnaði og stýrði Northern Wave Film Festival, þar sem hún kom m.a. verkefninu „Norrænar Stelpur skjóta“ á legg. Dögg tók þátt í stofnun Stockfish og var einn af stjórnarmeðlimum fyrstu ár hátíðarinnar.

Halla Þórlaug er með BA-gráðu í myndlist og MA gráður í ritlist. Hún hefur stýrt fjölda listtengdra viðburða, meðal annars bókmenntahátíðinni Queer Situations og starfað hjá RÚV við dagskrárgerð. 

Fráfarandi framkvæmdastjórar eru Carolina Salas og Hrönn Kristinsdóttir, sem stýrðu hátíðinni 2023 og 2024.