Nýir íslenskir teiknimyndaþættir kynntir í Frakklandi við góðar undirtektir
Teiknimyndaserían Alfie's Alright, frá Animation Studio Iceland, var kynnt á Cartoon Forum í Toulouse í síðustu viku.
Cartoon Forum tekur á móti yfir 1.000 gestum frá meira en 40 löndum víðs vegar um heiminn og er einn mikilvægasti kynningar- og samframleiðsluvettvangur fyrir teiknimyndaseríur.
Alfie's Alright var þar kynnt fyrir fullum sal og fyrstu viðbrögð alþjóðlegra kaupenda voru góð. Verkefnið fékk hæstu einkunnir þeirra sem veittu endurgjöf: 5/5 fyrir hugmynd, 5/5 fyrir grafískan stíl, 5/5 fyrir markhóp og 5/5 fyrir markaðsmöguleika.
Serían er ætluð börnum 7 ára og eldri og segir frá ungum álfi sem flytur í borgina og þarf að fóta sig í nýju umhverfi hjá nýfundinni fjölskyldu. Verkefnið hlaut þróunarstyrk úr Kvikmyndasjóði árið 2025.
Höfundur Alfie's Alright er Conor Leech. Heather Millard og Guðný Guðjónsdóttir fara fyrir Animation Studio, sem var stofnað árið 2023 til að styðja við framleiðslu teiknimyndaseríunnar Ormhildur hin hugrakka, sem til stendur að sýna á RÚV, SVT, NRK, DR, sænska YLE og NDR og Kika í Þýskalandi frá og með janúar á næsta ári.