Um KMÍ
Á döfinni

3.7.2025

Nýir styrkir til birtingar kynningarefnis íslenskra kvikmynda

Frá og með 1. ágúst 2025 verður hægt að sækja um kynningarstyrki til markaðssetningar á íslenskum kvikmyndum í fullri lengd, sem hafa hlotið framleiðslustyrk frá KMÍ og eru ætlaðar til almennra sýninga í kvikmyndahúsum á Íslandi. Styrknum er aðeins ætlað að mæta kostnaði sem hlýst af birtingu kynningarefnis innanlands.

Um tilraunaverkefni er að ræða sem verður endurskoðað árlega út frá árangri markaðssetningar og fjárhagsstöðu sjóðsins. Hægt er að sækja um styrkinn þegar sýningareintak kvikmyndarinnar er tilbúið og hún tilbúin til almennra sýninga í kvikmyndahúsum á Íslandi.

Styrkurinn miðast við 50% af heildarkostnaði birtinga á auglýsingum um sýningar á myndinni innanlands, að hámarki 2 m.kr. Styrkveiting miðast við stöðu sjóðsins hverju sinni.

Greiðslur verða jafnar og greiddar í tvennu lagi, við undirritun samnings og uppgjör.

Umsókn þarf að berast í síðasta lagi 30 virkum dögum fyrir frumsýningu. Með umsókninni þarf að fylgja ítarleg greinargerð um birtingar auglýsingaefnis kvikmyndarinnar þar sem fram kemur:

  • Upplýsingar um markhópanálgun myndarinnar.
  • Dreifingaráætlun auglýsinga í fjölmiðlum á borð við netmiðla, útvarpsmiðla, sjónvarpsmiðla, prentmiðla og hlaðvörp.
  • Upplýsingar um auglýsingar í biðskýlum sem og eða aðrar auglýsingaleiðir ótaldar hér að framan.
  • Sundurliðuð heildarkostnaðaráætlun fyrir birtingar auglýsinga.
  • Fjármögnunaráætlun.

Önnur umsóknargögn:

  • Allt kynningarefni sem viðkemur kvikmyndinni, til að mynda stiklur, herferðir í kvikmyndahúsum, stafrænt kynningarefni sem og plaköt og annað prentefni.

Umsóknir skulu berast á umsoknir@kvikmyndamidstod.is.