Opið fyrir umsóknir í vinnusmiðju SKL fyrir heimildamyndir
Uppfært 20. júní 2025.
Samtök kvikmyndaleikstjóra stendur fyrir vinnusmiðju fyrir heimildamyndir með stuðningi frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Vinnusmiðjan er fyrir heimildaverk í vinnslu, hvort sem myndirnar eru í þróun, á framleiðslustigi eða með grófklipp. Vinnusmiðjan er haldin í Hafnar.Haus 3. – 7. september.
Leiðbeinandi með mikla alþjóðlega reynslu og þekkingu
Ráðgjafi er Martin Horyna sem hefur í meira en áratug unnið við að velja kvikmyndir á
alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Karlovy Vary og býr yfir mikilli þekkingu á hinum alþjóðlega markaði fyrir heimildamyndir. Martin hefur setið í fjölda dómnefnda, ásamt því að vera ráðgjafi fyrir heimildamyndir, bæði varðandi áætlanagerð vegna kvikmyndahátíða en einnig sem dramatúrg.
Meistaraspjall
Martin verður með fyrirlestur um áætlanagerð fyrir þátttöku á kvikmyndahátíðum 4. September. Fyrirlesturinn er öllum opinn. Nánari upplýsingar koma síðar.
Markmið smiðjunnar
Í smiðjunni verður lögð áhersla á að styrkja kjarna efnistaka verkefna og frásagnarmáta þeirra og fá ráðgjöf um hvernig hið sjónræna efni og treatment spila saman. Markmið smiðjunnar er að styðja við framleiðslu og þróun á skapandi heimildamyndum. Það sem verður metið við val á verkefnum eru gæði umsóknarinnar, skýr listræn sýn með áherslur á raunveruleikann og kvikmyndamiðilinn sem og áhersla á að fjalla um samtímann á sem áhrifamestan og skapandi hátt. Verkefni sem hafa hlotið þróunar- og framleiðslustyrki frá Kvikmyndamiðstöð Íslands fá forgang en alls verða fimm verkefni valin til að taka þátt í smiðjunni.
Umsóknir
Verkefnastjóri er Yrsa Roca Fannberg og skulu allar fyrirspurnir og umsóknir berast á netfangið yrsarocafannberg@gmail.com.
Smiðjan fer fram á ensku og skulu umsóknir vera á ensku. Umsókn skal senda á netfangið yrsarocafannberg@gmail með titlinum Vinnusmiðja Martin Horyna 2025.
Umsókn skal berast sem eitt pdf skjal og þarf að innihalda stutt synopsis, greinagerð leikstjóra, treatment/handrit (max 7 bls.) og sjónrænt efni (ljósmyndir, eða samanklippt efni allt að 10 mínútum). Verkefni sem eru á grófklippsstigi þurfa að senda valið klippt efni, allt að 20 mínútum). Einnig verður beðið um stutta greinargerð leikstjóra og/eða framleiðanda um hvaða væntingar þau hafa af smiðjunni. Verkefni sem hafa tekið þátt í smiðjunni með Mörtu Andreu sem ráðgjafa þurfa sýna fram á þróun verkefnanna.
Umsóknin þarf að vera á ensku og þarf allt sjónrænt efni að vera með enskum texta.
Umsóknarfrestur er 27.júní og svar verður gefið 20.júlí.
Þáttökugjald er 20.000 ISK + VSK. Ætlast er til að þáttakendur taki virkan þátt í smiðjunni.
Vinnustofan er studd af Kvikmyndamiðstöð Íslands og er í samstarfi við alþjóðlegu heimildahátíðina IceDocs og Hafnar.Haus.