Um KMÍ
Á döfinni

12.10.2023

Opnir fyrirlestrar um heimildamyndagerð

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda stendur að þróunar- og pitch-kynningarvinnustofu í tveimur hlutum fyrir íslensk heimildaverk 17.-19. október. Leiðbeinendur eru Gitte Hansen, Mikael Opstrup og Jesper Osmund, margrómaðir ráðgjafar á sviði heimildamynda. Fyrsti hluti vinnustofunnar fer fram í Reykjavík dagana 17.-19.október.



Í tengslum við vinnustofuna verða haldnir tveir opnir fyrirlestrar á ensku í Bíó Paradís:

• 18.október kl.16:30-18:00 – Editing without a script með Jesper Osmund.
• 19.október kl.16:30-18:00 – From Iceland to the international documentary scene með Gitte Hansen & Mikael Opstrup.

Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.


Vinnustofan er studd af Kvikmyndamiðstöð Íslands og Íslandsstofu. Verkefnastjóri vinnustofunnar fyrir hönd Skjaldborgar er Kristín Andrea Þórðardóttir.

Mikael Opstrup og Gitte Hansen hafa yfirgripsmikla reynslu í þróun heimildamynda og hafa verið hringborðsstjórnendur Nordisk Panorama Forum til margra ára. Auk þess vinna þau víða um heim á vettvangi heimildamyndafagsins meðal annars á fjármögnunarráðstefnum á borð við IDFA Forum og CPH:DOX Forum og við námskeiðahald hjá IDFAcademy. Þau standa fyrir vinnustofum víða um heim og starfa við ráðgjöf og dóm- og valnefndastörf fyrir kvikmyndahátíðir og ráðstefnur. Jesper Osmund er klippari og ráðgjafi en eftir hann liggja um hundrað verðlaunaðra heimildamyndatitla. Auk þess starfar sem klippiráðgjafi við vinnustofur á borð við NORTH PITCH 'Below Zero', Thessaloniki IDF og DocLisboa og sem leiðbeinandi hjá IDFAcademy og víðar.

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda hefur frá stofnun árið 2007 haft það að markmiði að stuðla að eflingu heimildamyndafagsins á Íslandi. Vinnustofan er mikilvægur liður í eflingu fræðslustarfs hátíðarinnar, sem er í stöðugri þróun. Kjarni starfsins er árleg hátíð íslenskra heimildamynda um hvítasunnuhelgina á Patreksfirði.