Um KMÍ
Á döfinni

6.10.2022

Þrjúbíó á nýjum tímum – ráðstefna um þróun barnaefnis og kvikmyndalæsi

Kvikmyndamiðstöð Íslands blæs til ráðstefnu dagana 27. - 28. október þar sem margrómaðir fræðimenn, framleiðendur og þróunarstjórar beggja vegna Atlantsála veita leiðsögn og innsýn í þróun og framleiðslu barnaefnis. Jafnframt verða flutt erindi og haldnar vinnusmiðjur um gerð náms- og stuðningsefnis fyrir kennara á öllum skólastigum.

Áskoranir og tækifæri

Fyrirlesarar, bæði erlendir og innlendir, hafa mikla reynslu af kvikmyndagerð fyrir börn og margt má læra af þeim um stefnumörkun og framkvæmd. Þar á meðal verða íslenskir kvikmyndagerðarmenn sem hafa lagt barnaefni fyrir sig eða eru leiðandi höfundar á sviði barnabókmennta.

Meðal erinda má nefna „Þekktu þína áhorfendur“, þar sem Knut Næsheim frá NRK Super segir frá reynslu sinni af markhóparannsóknum við þróun barnaefnis, og „Listin að sleppa takinu“, þar sem handritshöfundar, leikstjórar og framleiðendur ræða um helstu áskoranir sem standa þarf frammi fyrir þegar þekkt bókmenntaverk eru færð í kvikmyndabúning.

Vinnusmiðjur fyrir kvikmyndagerðarmenn og kennara

Föstudagurinn 28. október er helgaður vinnusmiðjum en þær eru einkum ætlaðar leikskóla- og grunnskólakennurum sem og kvikmyndagerðarmönnum. Lagt er upp með að þátttakendur öðlist yfirgripsmikla þekkingu ásamt því að fá í hendurnar hagnýt verkfæri sem nýtast í sköpun og starfi. Þar verður rekin lítil kvikmyndasmiðja þar sem kennarar geta spreytt sig á grunnþáttum kvikmyndagerðar.

Ráðstefnan hefur það að leiðarljósi að styrkja þróun, framleiðslu og miðlun á vönduðu barnaefni fyrir mismunandi aldursstig.  Hún er ætluð þeim sem starfa í þágu barna, til að mynda kennurum, kvikmyndagerðarmönnum og fulltrúum opinberra stofnana og sveitarfélaga. 

Aðgangur er ókeypis en sætaframboð er takmarkað.

Smelltu hér til að skrá þig.

Dagskrá:

Fyrirlestradagur – 27. október

9:00 – Opnun.

9:15 – Kvikmyndamiðstöð býður gesti velkomna.

9:30 – Inngangsfyrirlestur: Eva Novrup Redvall, lektor við Háskólann í Kaupmannahöfn. Að ná til ungra áhorfenda: Á hvað horfa börn og unglingar? Og hvernig fáum við þau til að horfa á norrænt efni?!

10:15 – „Þetta litla ljós mitt hér“: Að sigrast á óttanum og skapa frumsamda barnaþætti. Josh Selig.

10:45 – Kaffihlé.

11:05 – Mynd og miðlalæsi fyrir yngsta aldurshópinn frá sjónarhorni dönsku kvikmyndastofnunarinnar DFI. Lisbeth Arto Juhl Sibbesen.

11:40 – FILM-X: Kvikmyndaframleiðsla með skólabörnum gegnum leik. Kari Eggert Rysgaard.

12:10 – Börn og netmiðlar: Ný rannsókn Fjölmiðlanefndar á miðlanotkun barna og ungmenna. Skúli Bragi Geirdal.

12:30 – Hádegisverður.

13:15 – Kynning á B14 samframleiðsluverkefni norrænu ríkissjónvarpsstöðvanna.

13:30 – Þekktu þína áhorfendur. Knut Næsheim frá NRK Super segir frá reynslu sinni af því að nota markhóparannsóknir við þróun hugmynda á barnaefni.

14:25 – Norræn rödd, er hún til og ef svo er hvernig hljómar hún?

15:10 – Kaffihlé.

15:25 – Sex bækur sem myndu sóma sér vel á hvíta tjaldinu. Kynning á bókum fyrir börn og ungmenni sem færa má í kvikmyndabúning.

16:00 – Kvikmyndir fyrir börn byggðar á bókum. Listin að sleppa takinu.

16:45 – Samantekt.

17:00 – Dagskrárlok.

Vinnustofur – 28. október

9:00 – Vinnustofa í kvikmyndagerð og hvernig má nota kvikmyndir í kennslu fyrir starfsfólk leikskóla og yngsta stig grunnskólans.

11:00 – Eru kvikmyndir listgrein eða tungumál? Hallur Örn Árnason kynnir nýtt kennsluefni í kvikmyndagerð og kvikmyndalæsi fyrir miðstig grunnskólans. (90 mín).

14:00 – Að búa til vandaðar þáttahandbækur (Bible) fyrir barnaþáttaraðir. Vinnustofa fyrir handritshöfunda og framleiðendur Josh Selig (2 tímar).

16:10 – Dagskrárlok.


Áhugasamir geta skráð sig hér: