Um KMÍ
Á döfinni

28.9.2022

Vegleg dagskrá á RIFF, alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík

RIFF, alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, hefst fimmtudaginn 29. september. Þetta er í nítjánda sinn sem hátíðin er haldin og fer hún fram í Háskólabíói og víðar í borginni. Dagskrá hennar er að venju fjölbreytt.

Opnunarmynd hátíðarinnar er Vera, eftir leikstjórana Tizzu Covi og Rainer Frimmel, sem heimsfrumsýnd var við góðar undirtektir á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum í september. Hátíðinni lýkur 9. október með heimsfrumsýningu á mynd Elvars Aðalsteinssonar, Sumarljós og svo kemur nóttinn. Myndin byggist á samnefndri skáldsögu Jóns Kalmans Stefánssonar.

Í dagskrárliðnum Ísland í sjónarrönd eru kvikmyndir, heimildamyndir og stuttmyndir eftir íslenskt kvikmyndagerðarfólk sýndar. Má þar nefna heimildamyndirnar Atomy eftir Loga Hilmasson, og Konung fiðrildanna (King of the Butterflies) eftir Olaf de Fleur.

RIFF, dregur þema sitt í ár saman í eina spurningu: „Bakslag. Hvað í f******** er í gangi?“ Hátíðin vinnur í auknu samstarfi við ólíka samfélagshópa um að nýta áhrif kvikmyndagerðar á málefni samtímans. Málþing, sem dregur saman ólík umfjöllunarefni mynda í flokknum Önnur framtíð, verður haldið, þar sem unnið er út frá framlagi kvikmyndagerðar til mannréttindaþróunar í breiðum skilningi. 

Líkt og fyrri ár fara fram Bransadagar samhliða hátíðinni, vettvangur þar sem íslenskt og erlent kvikmyndagerðarfólk getur komist í beina tengingu við alþjóðlega kvikmyndaheiminn. Í ár er unnið sérstaklega með áhrif kvikmyndaiðnaðarins á samfélagið og hvernig heimildarmyndagerðarmenn geta unnið í samstarfi við ólíka hópa í samfélaginu til þess að auka áhrifin af vinnu sinni. Einnig fer fram fjölþjóðleg smiðja fyrir hæfileikafólk, RIFF Talent Lab , dagana 4.-8. október.