Um KMÍ
Á döfinni

29.9.2021

RIFF fer fram dagana 30. september til 10. október

RIFF Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík verður sett í 18. sinn þann 30. september næstkomandi og stendur til 10. október. Vegleg kvikmyndadagskrá verður á riff.is og líkt og hin fyrri ár verður fjöldinn allur af erlendum og íslenskum kvikmyndum sýndar. Samhliða hátíðinni verður stór hluti dagskrárinnar aðgengilegur á netinu í gegnum RIFF Heima.

Opnunarmynd RIFF í ár verður The Worst Person in The World eftir Norðmanninn Joachim Trier og hátíðinni lýkur með sýningu á kvikmyndinni Margrete, Queen of The North eftir Charlotte Sieling og með Trine Dyrholm í aðalhlutverki. Myndin er norrænt samstarfsverkefni þar sem Truenorth er meðframleiðandi og Halldóra Geirharðsdóttir og Tinna Hrafnsdóttir leika í myndinni.

Fjöldinn allur af íslenskum kvikmyndum, heimildamyndum og stuttmyndum verða sýndar á hátíðinni m.a. undir dagskrárliðunum Ísland í sjónarrönd, íslenskar stuttmyndir og íslenskar nemastuttmyndir. Kvikmyndin Wolka eftir Árna Ólaf Ásgeirsson er opnunarmynd flokksins Ísland í sjónarrönd en til heiðurs Árna sem lést á liðnu ári verða þrjár kvikmyndir til viðbótar undir hans leikstjórn sýndar á hátíðinni. Það eru kvikmyndirnar Lói - þú flýgur aldrei einn, Blóðbönd og Brim.  

Heiðursgestir eru leikstjórarnir Mia Hansen-Løve og Joachim Trier, leikkonan Trine Dyrholm og Debbie Harry, söngkona sveitarinnar Blondie. Meistaraspjöll og sérviðburðir eru haldnir með þessum einstöku listamönnum.

Á meðal sérviðburða á hátíðinni má nefna bílabíó, hellabíó, sundbíó, BDSM bíókynning, nýjasta tækni og kvikmyndir, DJ Björk, Saga Borgarættarinnar og vínsmökkun. 

Allar nánari upplýsingar um dagskrá, hverja mynd, sérviðburði og hvernig skuli nálgast miða er að finna á heimasíðu RIFF og hér má nálgast dagskrárbækling RIFF í heild sinni.

Bransadagar RIFF

Meðfram hátíðinni fara fram Bransadagar, sem er vettvangur þar sem íslenskt og erlent kvikmyndagerðarfólk getur komist í tengingu við alþjóðlega kvikmyndaheiminn. Þá koma fyrirlesarar úr kvikmyndaiðnaðinum og halda erindi um hin ýmsu mál sem brenna á fagfólki innan kvikmyndageirans. Bransadagar standa yfir frá 6. til 10. október.