RIFF hefst í dag
Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, (e. Reykjavik International Film Festival – RIFF) hefst með opnunarhátíð í Háskólabíói í kvöld kl. 19:00 og stendur til 6. október. Þetta er í 21. skipti sem hátíðin fer fram.
Þýska leikkonan Nastassja Kinski verður heiðruð fyrir ævistarf sitt á hátíðinni í kvöld. Boðið verður upp á meistaraspjall með leikkonunni fyrir gesti og gangandi í Norræna húsinu á föstudag, 27. september kl. 16:00, þar sem hún ræðir feril sinn.
Opnunarmynd RIFF er Elskuleg (n. Elskling), sem Variety segir vera einstaka frumraun og „egghvasst tilfinningadrama“ íslensk-norsku kvikmyndagerðarkonunnar Lilju Ingólfsdóttur.
https://www.youtube.com/watch?v=y37BnHxO_Qg
Á undan henni verður stuttmyndin 1000 orð eftir Erlend Sveinsson sýnd, samnefnd hljómplötu tónlistarfólksins Birnis og Bríetar.
Mikill fjöldi kvikmynda á hátíðinni í ár
Í tilkynningu frá hátíðinni segir að alls verði 328 kvikmyndir sýndar, þar af 246 stuttmyndir, en aldrei hefur verið sótt um að sýna fleiri slíkar á hátíðinni. Hlutfall karla og kvenna sem eiga myndir á hátíðinni í ár er jafnt.
Að þessu sinni eru sýndar 47 íslenskar myndir, 262 evrópskar, en samtals eiga 65 þjóðlönd kvikmyndaverk á hátíðinni frá öllum heimsálfum.
Alls eru 30 heimsfrumsýningar á RIFF í ár og 36 Norðurlandafrumsýningar.
Áætla má í ljósi fyrri hátíða að um 25 þúsund gestir, erlendir sem innlendir, njóti fjölbreyttra atburða á RIFF, jafnt sýninga og sérviðburða af margvíslegu tagi.
Háskólabíó er meginvettvangur RIFF í ár.