Um KMÍ
Á döfinni

29.7.2024

Rúnar valinn besti leikstjórinn á Evrópsku kvikmyndahátíðinni í Palic

Rúnar Rúnarsson, leikstjóri kvikmyndarinnar Ljósbrot, hlaut verðlaun fyrir bestu leikstjórnina á verðlaunahátíð Evrópsku kvikmyndahátíðarinnar í Palic í Serbíu, sem fram fór föstudaginn 26. júlí. 

„Ljósbrot heillaði okkur ekki aðeins með frábærum leik og hugmyndaríkri notkun myndmáls og hljóðs, heldur einnig með lýsingu á innri sorg í flóknum sambandsaðstæðum,“ sagði Bettina Broekemper, formaður dómnefndar, í tölu sinni þegar verðlaunin voru veitt. „Mjög innileg kvikmynd sem sýnir ástarmissi á blíðlegan og áhrifaríkan hátt. Með mikilli nákvæmni og snörpum stíl, skilur leikstjórinn þig eftir agndofa.“

Kvikmyndin fer í almennar sýningar  á Íslandi 28. ágúst. Með hlutverk fara Elín Hall, Katla Njálsdóttir, Mikael Kaaber, Baldur Einarsson, Gunnar Kristjánsson og Ágúst Wigum.

Rúnar Rúnarsson, leikstjóri og handritshöfundur Ljósbrots.

Ljósbrot var opnunarmynd Un Certain Regard á kvikmyndahátíðinni í Cannes. Hún hlaut standandi lófaklapp áhorfenda í fimm mínutur sem og jákvæð viðbrögð gagnrýnenda.

Myndin gerist á fallegum vordegi þegar líf Unu snýst á hliðina á svipstundu og upphefst rússibanaferð tilfinninga. Þar sem mörkin milli hláturs og gráturs, fegurðar og sorgar, verða stundum óskýr.

Rúnar Rúnarsson skrifar handrit myndarinnar og leikstýrir, framleiðandi er Heather Millard.