Um KMÍ
Á döfinni

17.11.2022

Rut Sigurðardóttir í viðtali hjá Business Doc Europe

Rut Sigurðardóttir tók nýverið þátt í þjálfunarbúðum fyrir upprennandi heimildamyndagerðarmenn sem fór fram samhliða IDFA-heimildamyndahátíðinni í Amsterdam dagana 9.-20. nóvember. Þjálfunarbúðirnar heita IDFAcademy og hafa kvikmyndagerðarmenn frá Íslandi tekið þátt í þeim síðustu ár.

Rut vinnur nú að gerð fyrstu heimildamyndar sinnar og er hún framleidd af Bíóbúgí í samvinnu við Freyja Filmwork. Myndin heitir Skuld og í henni fjallar Rut um það þegar hún, ásamt maka sínum, ákveður að feta í fótspor forfeðra sinna og gera út trilluna Skuld á handfæraveiðum, með tilheyrandi fjárhagsáhættu og togstreitu í sambandi þeirra.

Rut ræðir um myndina og eigin sýn á heimildamyndagerð í viðtali við fagtímaritið Business Doc Europe .

„Við komum okkur út í svo fjarstæðukenndar aðstæður þegar við keyptum bátinn,“ segir hún í viðtalinu. „Aðra stundina leið okkur eins og konungum hafnarinnar en hina fylltumst við örvæntingu og efasemdum um hvað við værum að gera...Mögulega var myndin leið til þess að öðlast betri skilning á aðstæðunum og neyða mig til að líta inn á við, finna merkingu og skilning á minni eigin tilveru og sýn á hlutina.“

Rut segir að á Íslandi sýni sífellt fleiri heimildamyndagerð áhuga. „Þetta er ekki stór sena, en hún er að stækka. Við sækjum tvímælalaust innblástur til hinna Norðurlandanna og viljum læra af þeim.“

Gerð myndarinnar er á lokastigum og stefnir Rut að því að frumsýna hana snemma á næsta ári.