Um KMÍ
Á döfinni

27.6.2023

Samnorrænt námskeið fyrir grænstjóra

Norrænu kvikmyndastofnanirnar og Hochschule der Medien í samvinnu við Danska kvikmyndaskólann hafa tekið höndum saman um að bjóða upp á námskeið fyrir fagfólk í kvikmyndagerð sem hefur áhuga á að auka þekkingu sína á sjálfbærni í kvikmynda- og sjónvarpsframleiðslu og miðla þeirri þekkingu innan greinarinnar á Norðurlöndum.

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur öðlist þekkingu og færni til

  • að starfa sem grænstjóri.
  • að innleiða sjálfbærni í eigin rekstri og störfum.
  • að þjálfa aðra kvikmyndagerðarmenn til að taka að sér starf grænstjóra (e. green manager).
  • að hanna námskeið fyrir verðandi grænstjóra.

Grænstjóri eða umhverfisstjóri (e. green manager, eco supervisor) hefur umsjón með gerð sjálfbærniáætlunar, eftirliti og eftirfylgni, í samvinnu við framleiðendur, yfirmenn deilda og vottunaraðila. 

Dagsetningar og námsfyrirkomulag

25. október 2023– 3. apríl 2024.

Námskeiðið verður kennt í lotum yfir 12 vikur í fjarnámi. Kennt verður á miðvikudögum kl 17:00 - 19:00 að íslenskum tíma (18:00-20:00 CET). Þriggja daga vinnustofa fer svo fram við Danska kvikmyndaskólann í Kaupmannahöfn, 27.-29. febrúar 2024 sem lýkur með lokakynningu netinu 3. apríl 2024. Námið samsvarar 6 ECTS stigum, 180 klukkustundum sem skipt verður á milli kennslustunda og heimavinnu.


Kennt verður á ensku.

Kennarar

Boris Michalski, kennari við Hochschule der Medien í Stuttgart og kvikmyndaframleiðandi.

Dörte Schneider, grænstjóri.

Gestafyrirlesarar á sviði kvikmyndagerðar, svo sem framleiðendur, ljósameistarar, stjórnendur eftirvinnslu og reyndir grænstjórar koma einnig að kennslunni.

Skilyrði

  • Þú hefur víðtæka þekkingu og reynslu á sviði kvikmyndagerðar.
  • Þú brennur fyrir aukinni sjálfbærni í kvikmyndagerð.
  • Þú vilt stuðla að aukinni meðvitund og fræðslu um sjálfbærni í kvikmyndagerð.
  • Þú hefur sótt námskeið um græna kvikmyndagerð og/eða hagnýtt þér sjálfbæra aðferðafræði í kvikmyndagerð
  • Þú skuldbindur þig til þátttöku í öllu námskeiðinu, þar með talinni þriggja daga vinnustofu í Kaupmannahöfn 27-29. febrúar 2024.

Í boði eru sæti fyrir 12-18 þátttakendur frá öllum Norðurlöndunum, þar af allt að þrír frá Íslandi.

Kvikmyndamiðstöð Íslands greiðir námskeiðsgjald fyrir allt að þrjá þátttakendur sem uppfylla ofangreind skilyrði. Þátttakendur frá Íslandi geta sótt um ferðastyrk vegna staðarnáms í Kaupmannahöfn til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Umsóknir (kynningarbréf 1 bls. og ferilskrá) sendist á amk@kvikmyndamidstod.is

Umsóknarfrestur: 22. ágúst 2023.