Um KMÍ
Á döfinni

24.1.2023

Sara Gunnarsdóttir tilnefnd til Óskarsverðlauna

Sara Gunnarsdóttir, leikstjóri My Year of Dicks, og Pamela Ribon, handritshöfundur myndarinnar, eru tilnefndar til Óskarsverðlauna 2023 í flokki stuttra teiknimynda.

My Year of Dicks var heimsfrumsýnd á South by Southwest vorið 2022 og hefur hlotið mikla athygli og lof á fjölda virtra hátíða, svo sem Annecy-kvikmyndahátíðinni þar sem hún var valin besta sjónvarpsframleiðslan. Myndin keppir einnig um verðlaun á alþjóðlegu stuttmyndahátíðinni í Clermont-Ferrand, sem hefst 27. janúar.

My Year of Dicks fjallar á hispurslausan hátt um 15 ára stúlku í Houston á tíunda áratug síðustu aldar sem hefur einsett sér að missa meydóminn. Myndin byggist á endurminningabók Pamelu Ribon, Notes to Boys: And Other Things I Shouldn't Share in Public.

Sara er fyrsti íslenski kvenleikstjórinn til að hljóta tilnefningu til Óskarsverðlauna. Hún er annar Íslendingurinn til að hljóta tilnefningu í flokki stuttra teiknimynda, en Gísli Darri Ólafsson var tilnefndur fyrir mynd sína, Já-fólkið, árið 2021.