Um KMÍ
Á döfinni

30.4.2024

Sara Nassim fulltrúi Íslands á Producers on the Move í Cannes

Sara Nassim verður fulltrúi Íslands á Producers on the Move í Cannes, sem samtökin European Film Promotion standa fyrir.

Hvert hinna 37 aðildarríkja European Film Promotion tilnefnir einn framleiðanda til þátttöku og úr þeim hópi eru 20 valdir.

Producers on the Move fer fram samhliða Cannes kvikmyndahátíðinni í maí. Þar skapast einstakt tækifæri til að koma upp tengslaneti með það fyrir augum að fara í evrópskt samstarf. 

Sara er einn af stofnendum framleiðslufyrirtækisins S101. Hún hefur áralanga reynslu af kvikmyndagerð. Hún hefur framleitt stuttmyndir og komið að framleiðslu þekktra íslenskra kvikmynda. Árið 2018 var Sara tilnefnd til Grammy-verðlauna fyrir tónlistarmyndband sem hún framleiddi og árið 2021 útnefndi Variety hana á meðal 10 upprennandi framleiðenda sem ætti að fylgjast með. 

Kvikmyndin Dýrið var sú fyrsta í fullri lengd sem Sara framleiddi, en hún var heimsfrumsýnd í Un Certain Regard á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2021 og hlaut verðlaun sem frumlegasta kvikmyndin. Sara vinnur nú að kvikmyndaverkefni í fullri lengd með tónlistarkonunni Björk, auk kvikmynda í leikstjórn Valdimars Jóhannssonar og Gríms Hákonarsonar.

Framleiðendur sem taka þátt í Producers on the Move eiga það sameiginlegt að hafa þegar framleitt mynd sem hefur náð alþjóðlegri dreifingu og setja stefnuna á að hasla sér völl á alþjóðlegum vettvangi.

European Film Promotion (EFP) eru samtök 37 evrópskra kvikmyndastofnana sem leggja áherslu á að kynna og markaðssetja evrópskar kvikmyndir og listamenn um heim allan. Meðal íslenskra framleiðenda sem tekið hafa þátt í Producers on the Move eru: Lilja Ósk Snorradóttir (2019), Birgitta Björnsdóttir (2018), Anton Máni Svansson (2017), Heather Millard (2015).