Um KMÍ
Á döfinni

1.5.2024

Scandinavian Films verða að The Five Nordics

Samtök kvikmyndastofnana á Norðurlöndum, sem áður hétu Scandinavian Films, hafa endurmarkað sig undir nafninu The Five Nordics.

Þjóðirnar fimm – Ísland, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð – hafa í sameiningu kynnt kvikmyndir Norðurlanda á alþjóðavettvangi áratugum saman. Nýtt útlit og nafn samtakanna endurspeglar víðtækara samstarf á nýjum tímum, auk þess að nafn samtakanna endurspegli betur þátttöku landanna tveggja sem standa utan Skandinavíu, Íslands og Finnlands.

The Five Nordics munu áfram kynna norræna kvikmyndagerð á kvikmyndahátíðum og mörkuðum, en nú mun kynningarstarf samtakanna einnig ná til sjónvarpsefnis og tölvuleikja. Lögð verður áhersla á þróun sjálfbærni í kvikmyndagerð, gagnavinnslu og greiningu, auk þess að styðja við fjölbreytileika, inngildingu og listrænt frelsi.

Næst á dagskrá samtakanna er að kynna nýtt nafn og norræna kvikmyndagerð á kvikmyndahátíðinni í Cannes, sem fer fram 14.-25. maí, í Norræna húsinu sem stendur gegnt sýningarhöll hátíðarinnar.

Þetta er einkar sterkt ár fyrir norrænar kvikmyndir í Cannes. Kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, Ljósbrot, verður opnunarmynd Un Certain Regard, og frumraun hins norska Halfdan Ullmann Tøndels, kvikmyndin Armand, verður einnig sýnd í flokknum. Í aðalkeppni hátíðarinnar verða nýjustu kvikmyndir Magnus von Horn og Ali Abbasi einnig sýndar, Pigen med nålen og The Apprentice.