Handbók á íslensku um sjálfbæra kvikmyndaframleiðslu
Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér handbók á íslensku um sjáfbæra kvikmyndaframleiðslu. Fjölmargir valkostir standa nú kvikmyndagerðarmönnum til boða til að stuðla að sjálfbærni í sinni starfsemi. Stofnanir og sjóðir í Evrópu hafa þróað handbækur og vottunarkerfi, og á vettvangi Creative Europe og ESB/EES stendur yfir vinna við sameiginleg viðmið og vottun um sjálfbærni í kvikmyndagerð. Við fylgjumst grannt með þeirri þróun og munum kynna niðurstöður þeirrar vinnu þegar þær liggja fyrir.
Okkur þykir hins vegar brýnt að hvetja íslenska kvikmyndagerðarmenn áfram til góðra verka á þessu sviði, og höfum því gengið til samstarfs við Trentino Film Commission um notkun á leiðbeinandi handbók um sjálfbæra kvikmyndaframleiðslu, green.film. Handbókin hentar bæði fyrir samframleiðslu og smærri verkefni, og er aðgengileg hér bæði á íslensku og ensku. (smellið hér)
Í handbókinni eru ýmis ráð og leiðbeiningar um hvernig breyta megi framleiðsluháttum og um umhverfisvæna valkosti sem hægt er að velja. Mælt er með því að byrja smátt og velja sér tiltekin áherslusvið.
Í ensku útgáfu handbókarinnar er að finna stigakerfi sem hægt er að nota til að meta hversu þungt hver og ein aðgerð vegur.
Einnig er hægt að nýta handbókina til þess að fá GREEN FILM vottun, það er vottun um umhverfisvæna og sjálfbæra kvikmyndaframleiðslu. Vottunin er samevrópskt verkfæri og var þróað á Ítalíu fyrir kvikmyndastofnanir, sjónvarpsstöðvar og svæðisbundna sjóði sem vilja styðja og hvetja evrópska framleiðendur til þess að framleiða efni á loftslagsvænan hátt.
Handbókin geymir hugmyndir sem nýtast vel þegar fyrstu skrefin að umhverfisvænni framleiðslu eru tekin, óháð því hvort stefnt er að vottun eða ekki.
Sjá: Græn kvikmyndagerð - Handbók um sjálfbæra kvikmyndaframleiðslu