Sjöttu alþjóðlegu kvikmyndaverðlaunin til Ljósbrots
Kvikmyndin Ljósbrot var útnefnd besta myndin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Nuuk, sem fór fram 18.-21. september.
Formaður dómnefndar, Berda Larsen, afhenti verðlaunin á lokaathöfn kvikmyndahátíðarinnar. Í tölu sinni sagði hún meðal annars: „Með kraftmikilli miðlun tilfinninga leiddi myndin okkur áfram og gerði okkur berskjölduð. Það er einróma ákvörðun dómnefndarinnar að Ljósbrot sé besta leikna kvikmyndin á hátíðinni.“
Þetta eru sjöttu alþjóðlegu kvikmyndaverðlaunin sem Ljósbrot hlýtur. Myndin hefur notið mikillar hylli síðan hún var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes síðasta vor. Hún hefur síðan verið sýnd á mörgum af virtustu kvikmyndahátíðum heims. Þá hefur Ljósbrot einnig selst vel og fer í almennar sýningar um allan heim á næstunni.
https://www.youtube.com/watch?v=iTWqzppqh8Q&ab_channel=CompassFilms%2CIceland
Myndin gerist á fallegum vordegi þegar líf Unu snýst á hliðina á svipstundu og upphefst rússibanaferð tilfinninga. Þar sem mörkin milli hláturs og gráturs, fegurðar og sorgar, verða stundum óskýr. Með aðalhlutverk fara, Elín Hall, Katla Njálsdóttir, Mikael Kaaber, Baldur Einarsson, Gunnar Kristjánsson og Ágúst Wigum.