Skjaldborg - hátíð íslenskra heimildamynda frestað til 2022
Skjaldborg—hátíð íslenskra heimildamynda hefur verið frestað um eitt ár í ljósi aðstæðna. Hátíðin verður næst haldin um Hvítasunnuhelgina 2022, frá 3. til 6. júní í hefðbundinni heimildamyndaveislu að hætti Skjaldborgar á Patreksfirði. Opnað verður fyrir umsóknir í byrjun árs 2022.
Þá verður dagskrá Skjaldborgar 2020 sýnd í Skjaldborgarbíói helgina 14.-16. maí 2021. Við það tilefni afhendir frú Eliza Reid Eyrarrósina 2021, en Skjaldborg er handhafi Eyrarrósarinnar 2020.
Á vef Klapptrés kemur fram að haft var samband við Körnu Sigurðardóttur, einum stjórnenda hátíðarinnar, þar sem Karna hafði þetta að segja um málið:
„Skjaldborg varð ansi harkalega fyrir barðinu á covid síðastliðið ár. Hátíðinni var fyrst frestað frá hvítasunnu yfir á verslunarmannahelgi og stefndi í virkilega glæsilega heimildamyndaveislu. Mikil stemning var fyrir hátíðinni og það var slegist um Skjaldborgarpassana, uppselt var á hátíðina á örfáum dögum og biðlistinn var langur. Degi áður en hátíðin átti að hefjast tilkynnti ríkisstjórnin um hertar samkomutakmarkanir og þá var ekki annað að gera en að aflýsa hátíðinni fyrir vestan.
Á þessum tíma voru margir lagðir af stað vestur og við vorum búin að undirbúa uppsetningu á aukabíósal í félagsheimilinu í samstarfi við Bíó Paradís. Í ljósi aðstæðna var þó ekkert annað í stöðunni en að leyfa Skjaldborg að blunda um sinn.
Skjaldborg 2020 var haldin í Bíó Paradís í september, í fyrsta skipti utan Skjaldborgarbíós. Bíódagskrá hátíðarinnar var fjölbreytt og sýndi fram á mikla grósku í heimildamyndafaginu á Íslandi. Skjaldborg í borg var vel sótt og fékk mjög góðar viðtökur, þó í eilitlum skugga faraldursins sem var að taka sig upp aftur á þessum tíma.
Þar sem hátíðin var haldin svo seint á árinu 2020—og í ljósi þess að faraldurinn hefur einnig haft áhrif á framleiðslu heimildamynda síðastliðið ár, sáum við ekki að forsendur væru fyrir því að halda hátíð um hvítasunnu 2021, rúmu hálfu ári síðar. Það reyndist rétt ákvörðun því enn eru í gildi samkomutakmarkanir og ljóst að ekki hefði verið hægt að halda hátíðina núna um hvítasunnuna. Stjórn Skjaldborgar hóf því viðræður við helstu styrktar- og samstarfsaðila hátíðarinnar um að halda næstu hátíð á Patreksfirði um hvítasunnu 2022. Það var einróma samstaða um þessa ákvörðun.
Þó Skjaldborg eigi í sérstöku sambandi við limbó, þá hefur hátíðin í verið í heldur löngu limbói síðan vorið 2020 og nú hefur verið tekin endanlega ákvörðun um að Skjaldborg komi fílefld til baka um hvítasunnu, 3.-6. júní 2022. Þá verður heldur betur fagnað með heimildamyndamyndaveislu að hætti Skjaldborgar á Patreksfirði.“