Skjaldborgarhátíð um hvítasunnuhelgi
Skjaldborg - hátíð íslenskra heimildamynda verður haldin um hvítasunnuhelgina á Patreksfirði dagana 17.-20. maí 2024. Einkennismerki hátíðarinnar eru gæðastundir í Skjaldborgarbíói, skrúðganga, plokkfiskveisla, limbókeppni og vornóttin á Patreksfirði.
Þrettán myndir verða frumsýndar á Skjaldborg í ár. Hægt er að kynna þær sér frekar á vef hátíðarinnar.
Skjaldborg er kraftmikil uppskeruhátíð heimildamyndahöfunda og áhugafólks um heimildamyndir á Íslandi enda eina íslenska kvikmyndahátíðin sem sérhæfir sig í að frumsýna íslenskar heimildamyndir. Reynsluboltar í faginu, byrjendur og hinn almenni áhorfandi koma saman á hátíðinni í skemmtilegu og skapandi samtali sem gegnir mikilvægu hlutverki fyrir þróun og miðlun íslenskrar heimildamyndagerðar.
Heiðursgestir hátíðarinnar í ár eru Joe Bini og Maya Daisy Hawke margverðlaunaðir klipparar sem vinna bæði á sviði heimildamynda og leikinna, kenna meistarafyrirlestra ásamt því að skapa ‘live cinema' kvikmynda- og fyrirlestraverk. Ásamt meistaraspjalli með heiðursgestunum verða sýndar tvær heimildamyndir sem þau hafa klippt hvort um sig en það eru Óskarsverðlaunamyndin Navalny (2022) eftir Daniel Roher, sem Maya klippti, og Grizzly Man (2005) eftir Werner Herzog, sem Joe klippti en hann hefur alls klippt 27 myndir eftir Herzog.
Dagskráin í Skjaldborgarbíó verður fjölbreytt og auk frumsýndra verka verða kynnt verk í vinnslu, Kvikmyndasafn Íslands sýnir valdar heimildastuttmyndir eftir Reyni Oddsson og Palestínskar heimildastuttmyndir verða í brennidepli. Allar frumsýndar myndir í fullri lengd keppa um áhorfendaverðlaunin Einarinn og dómnefndarverðlaunin Ljóskastarann. Með Einarnum og Ljóskastaranum fylgir veglegt verðlaunafé í formi þjónustu frá tækjaleigunni Kukl, eftirvinnslufyrirtækinu Trickshot og hljóðverinu Phantom. Þá er gleðiefni að tilkynna að í ár hleypir Skjaldborg af stokkunum verðlaunum fyrir heimildastuttmynd ársins en verðlaunagripurinn á eftir að hljóta nafn. Nýju verðlaununum fylgir einnig verðlaunafé frá tækjaleigunni Kukl.
Hvað helstu dagskrárliði utan Skjaldborgarbíós varðar munu Sindri Sin Fang og Sóley Stefáns úr hljómsveitunum Seabear og Team Dreams hrista upp í hópnum með DJ setti á laugardagskvöldinu, Hekla Elísabet koma fram með sprenghlægilegt uppistand á lokakvöldi hátíðarinnar og Ragnar Ísleifur Bragason stýra Skjaldborgarbingói á opnunarkvöldinu. Lokaball Skjaldborgar fer fram í Félagsheimili Patreksfjarðar að lokinni skrúðgöngu, verðlaunaafhendingu, kóngadansi og limbódanskeppni um hvítasunnu eins og hefð er fyrir. FM Belfast liðar mæta vestur með DJ sett í bakpokum fullum af litríkri og taktfastri danstónlist og slögurum úr öllum áttum!
Hátíðarpassi veitir aðgang að allri dagskrá hátíðarinnar, sjávarréttaveislu, plokkfiskboði kvenfélagsins, partýi á laugardagskvöldinu, lokapartý og aðgang í sundlaugina og á tjaldstæðið alla helgina.
Ljósmynd: Patrik Ontkovic