Skjálfti frumsýnd á Íslandi
Skjálfti, fyrsta leikna kvikmynd Tinnu Hrafnsdóttur í fullri lengd, er frumsýnd hérlendis í dag, þann 31. mars. Skjálfti var heimsfrumsýnd í nóvember síðastliðnum á Tallinn Black Nights Film Festival í Eistlandi og er nú sýnd í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói, Bíó Paradís og Borgarbíói Akureyri.
Þegar Saga vaknar upp eftir heiftarlegt flogakast á Klambratúni man hún lítið sem ekkert hvað gerðist í aðdraganda þess. Í leit hennar að upplýsingum um sjálfa sig og sína nánustu fara minningar sem Saga bældi niður sem barn að koma upp á yfirborðið, minningar sem neyða hana til að horfast í augu við sjálfa sig og fjölskyldu sína sem tekist hafði að þegja ógnvænlegt leyndarmál í hel.
Tinna leikstýrði og skrifaði handritið að Skjálfta sem er byggð á skáldsögu Auðar Jónsdóttur. Myndin er framleidd af Hlín Jóhannesdóttur fyrir Ursus Parvus og með aðalhlutverk fara Aníta Briem, Edda Björgvinsdóttir og Jóhann Sigurðsson.