Um KMÍ
Á döfinni

11.2.2022

Skjálfti og Eggið valdar til þátttöku á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Santa Barbara

Kvikmyndin Skjálfti eftir Tinnu Hrafnsdóttur og stuttmyndin Eggið eftir Hauk Björgvinsson hafa verið valdar til þátttöku á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Santa Barbara, sem fer fram í 37. skipti dagana 2 – 12. mars.

Skjálfti trailer

Skjálfti, sem mun keppa til verðlaunanna Best Nordic/Dutch Film, er fyrsta leikna kvikmynd Tinnu Hrafnsdóttur í fullri lengd. Tinna leikstýrði og skrifaði handritið að myndinni sem byggð er á skáldsögu Auðar Jónsdóttur. Minningar sem Sögu hafði tekist að bæla niður sem barn koma skyndilega upp á yfirborðið og neyða hana til að horfast í augu við sannleikann um sjálfa sig.

Myndin er framleidd af Hlín Jóhannesdóttur fyrir Ursus Parvus og með aðalhlutverk fara Aníta Briem, Edda Björgvinsdóttir og Jóhann Sigurðsson.


Eggið trailer

Eggið verður sýnd í stuttmyndahluta hátíðarinnar. Myndin segir frá Gunnari og Önnu sem búa í litlu samfélagi sem hverfist um að útrýma ástarsorg með því að allir fái úthlutað nýjum maka á 7 ára fresti í Ástarlottóinu. Líf án ástarsorgar virðist sem himnaríki á jörðu en dystópískur raunveruleikinn blasir við þegar Gunnar og Anna verða ástfanginn upp fyrir haus og standa frammi fyrir úthlutun á nýjum maka.

Framleiðendur myndarinnar eru Tinna Proppé og Haukur Björgvinsson fyrir Reykjavík Rocket og meðframleiðendur eru Kjartan Þór Þórðarson og Hilmar Sigurðsson hjá Sagafilm. Með aðalhlutverk fara Bríet Ísis Elfar og Jóhann Kristófer Stefánsson.

Allar nánari upplýsingar um alþjóðlegu kvikmyndahátíðina í Santa Barbara má finna hér