Um KMÍ
Á döfinni

23.5.2024

SKL standa fyrir vinnusmiðju fyrir heimildamyndir með stuðningi frá Kvikmyndamiðstöð Íslands

Samtök kvikmyndaleikstjóra standa fyrir vinnusmiðju í tveimur hlutum fyrir heimildamyndir í vinnslu. Smiðjan er í samstarfi við við alþjóðlegu heimildahátíðina IceDocs, Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildamynda og Hafnar.Haus.

Vinnusmiðjan er fyrir heimildaverk í vinnslu, hvort sem það er á handritsstigi, í tökum eða klippingu. Ætlast er til að þáttakendur vinni áfram í sínum verkefnum á milli vinnusmiðja. Fyrri vinnusmiðjan er haldin í samstarfi við IceDocs og fer fram á Akranesi 18. – 21. júlí en seinni hlutinn fer fram í Hafnar.haus í Reykjavík í september.

Leiðbeinandi með mikla alþjóðlega reynslu og þekkingu

Ráðgjafi er Marta Andreu, sem hefur mikla reynslu sem leiðbeinandi og hefur komið hingað til lands og haldið vinnusmiðjur þrisvar sinnum áður. Auk þess hefur Marta verið einn af leiðbeinendum í Torino Film Lab, Eurodoc og Open Doors of Locarno Film Festival og fjölda annara vinnusmiðja. Marta er hluti af World Cinema Fund Program hjá Berlinale síðan 2011, þar velur hún verkefni á ýmsum framleiðslustigum sem hljóta styrki sjóðsins.

Meistaraspjöll

Marta verður með fyrirlestur í gegnum netið í samstarfi við IceDocs 19. júlí. Í september verður Marta með eitt meistaraspjall og einn fyrirlestur um handritsgerð í heimildamyndum í samstarfi við Skjaldborg og BíóParadís í september.

Öll eru velkomin á fyrirlestrana.

Markmið með smiðjunni

Í smiðjunni verður lögð áhersla á hið skapandi ferli í kvikmyndagerðarinnar, frekar en fyrirfram mótaðar hugmyndir og skilgreiningar á heimildamyndum. Eftir sem áður eiga verk sem falla að slíkum skilgreiningum greiðari leið í smiðjuna, en tilraunakenndari verk og skálduð verk sem vísa í formið eru einnig velkomin. Sjónræn miðlun heimildaefnis er skapandi ferli og blöndun milli miðla hefur rutt sér rúms á undanförnum árum. Þær myndir sem hlotið hafa athygli á kvikmyndahátíðum vinna oft með mörkin milli miðla. Það sem verður metið við val verkefnum eru gæði umsóknarinnar, skýr listræn sýn með áherslur á raunveruleikann og kvikmyndamiðilinn sem og áhersla á að fjalla um samtímann á sem áhrifamestan og skapandi hátt.

Fimm verkefni verða valin til þátttöku í smiðjunni og geta þau verið á mismunandi stigum þróunar eða framleiðslu.

Umsóknir

Verkefnastjóri er Yrsa Roca Fannberg og allar fyrirspurnir og umsóknir ættu að berast á netfangið yrsarocafannberg@gmail.com.

Smiðjan fer fram á ensku og skulu umsóknir vera á ensku. Umsókn skal senda á netfangið yrsarocafannberg@gmail með titlinum Vinnusmiðja Marta Andreu 2024.

Umsókn skal innihalda að hámarki 7 blaðsíður og berast sem 1 pdf skjal og þarf að innihalda synopsis (max 1 bls), greinargerð leikstjóra (e. Letter of intention (max 1bls)), sögulýsing sem inniheldur mögulegar persónur, senur, sjónræna sýn myndarinnar (mynd og hljóð). Ennfremur er óskað eftir sjónrænu efni, hvort sem það er hlekkur á stiklu og/eða valdri/völdum senum eða ljósmyndum. Nefnd velur út 10 verkefni og áframsendir til Mörtu Andreu sem sér um lokaval.

Umsóknarfrestur er 18. júní og svar verður gefið 4.júlí.

Þátttökugjald er 25.000 KSK. Í þátttökugjaldinu er innifalin gisting, morgun- og hádegismatur á Akranesi. Þáttakendur þurfa að greiða ferðakostnað og kvöldverð. Í Reykjavík þurfa þáttakendur að greiða fyrir ferða- og fæðiskostnað.

Vinnustofan er studd af Kvikmyndamiðstöð Íslands og er í samstarfi við IceDocs, Skjaldborg. Ætlast er til að verkefnin sem eru valin og hafa áður ekki tekið þátt í smiðjuni taki virkan þátt í báðum smiðjunum og gefi sér tíma til að vinna á milli smiðja.