Um KMÍ
Á döfinni

22.5.2025

Snerting verðlaunuð fyrir framúrskarandi notkun tökustaða

Verðlaunahátíð Screen International, Global Production Awards, fór fram á kvikmyndahátíðinni í Cannes 19. maí. Kvikmyndin Snerting, í leikstjórn Baltasars Kormáks, hlaut þar verðlaun fyrir framúrskarandi notkun tökustaða.

Dómnefndinni þótti fjölbreytni tökustaða myndarinnar mikið til koma. Myndin var tekin upp í þremur löndum, Íslandi, Japan og Englandi, og gerist á tveimur ólíkum tímasviðum. Í umsögn dómnefndar segir að framleiðsluteymið hafi þurft að yfirstíga ýmsar áskoranir við gerð myndarinnar, þar með taldar tafir á leyfisveitingum í Japan, endurgerð bresks veitingastaðar frá 7. áratug síðustu aldar í myndveri á Íslandi og tökur í mannmergðinni í Shibuya í Tókýó í Japan. Baltasar Kormákur og teymi hans fá lof fyrir trúverðuga framsetningu hvers lands og tímabils í bæði leikmynd og búningum.

Aðrar tilnefndar kvikmyndir voru Horizon: An American Saga – Chapter 1, í leikstjórn Kevins Costners, og Norah, í leikstjórn Tawfiks Alzaidis.