Um KMÍ
Á döfinni

28.4.2023

Soviet Barbara frumsýnd á Hot Docs: Sá stóri reyndist einhyrningur

Heimildamyndin Soviet Barbara: The Story of Ragnar Kjartansson in Moscow verður heimsfrumsýnd á Hot Docs í Kanada, stærstu heimildamyndahátíð Norður-Ameríku, 28. apríl.

Myndin fjallar um stórsýningu Ragnars Kjartanssonar í GES-2, menningar- og listamiðstöðinni í miðborg Moskvu, sem hófst í desember 2021 en lauk skyndilega við innrás Rússlands í Úkraínu 24. febrúar 2022.

Í myndinni er fylgst með undirbúningi Ragnars og samstarfsmanna hans og eftirmálum þessa ævintýris sem snerist heldur betur á annan veg en að var stefnt.

„Upphaflega ætluðum við okkur að gera heimildarmynd um þennan litríka og hressa listamann sem boðið var að opna risastórt safn í Moskvu. Við ætluðum að elta Ragnar á síðustu dögunum fyrir opnun, en eins og stundum er í heimildarmyndagerð breyttust plönin algjörlega,“ segir Gaukur Úlfarsson, leikstjóri myndarinnar. „Mér finnst kvikmyndagerð ekki ósvipuð stangveiði. Soviet Barbara var tilraun til að næla í þann stóra, villtan lax. Þess í stað kræktum við í einhyrning.“

Miðpunktur sýningar Ragnars í Moskvu var risastór lifandi skúlptúr eða gjörningur þar sem 70 listamenn og tæknifólk léku og framleiddu einn þátt af bandarísku sápuóperunni Santa Barbara á dag, auðvitað á rússnesku. Þættirnir nutu gríðarlegra vinsælda í Rússlandi og löndum fyrrum Sovétríkjanna um það leyti sem þau hrundu og daglegt líf fólks breyttist á örstuttum tíma. Við undirbúning sýningarinnar, þrjátíu árum eftir að þættirnir hófu göngu sína í Rússlandi, koma pólitískur þrýstingur, saga Sovétríkjanna og ritskoðun inn í spilið við undirbúning sýningar Ragnars, á meðan liðsafnaður rússneska hersins byggist upp á landamærum nágranna- og frændþjóðar. 

Stefnt er að því að frumsýna myndina á Íslandi síðsumars eða í haust. Framleiðslufyrirtækið Ofvitinn framleiðir myndina í samstarfi við Obbosí og RÚV, með stuðningi frá Kvikmyndamiðstöð Íslands og Norræna kvikmyndasjóðnum.