Um KMÍ
Á döfinni

12.5.2024

Íslensk kvikmyndaverk valin á Cannes óslitið síðan 2018

Kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, Ljósbrot, verður heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes miðvikudaginn 15. maí. Myndinni hlotnaðist sá heiður að opna Un Certain Regard-flokk hátíðarinnar, þar sem kvikmyndum sem sýna listræna djörfung er hampað. Fyrsta kvikmynd Rúnars í fullri lengd, Eldfjall, var heimsfrumsýnd í Director's Fortnight flokki-hátíðarinnar árið 2011. Áður höfðu stuttmyndir hans, Smáfuglar og Anna, verið valdar til sýninga á hátíðinni.

Íslensk kvikmyndaverk hafa verið valin til sýninga á kvikmyndahátíðinni í Cannes óslitið síðan 2018, þegar kvikmynd Benedikts Erlingssonar, Kona fer í stríð, var sýnd í Critic‘s Week. Það er því óhætt að segja að staða íslenskrar kvikmyndagerðar sé sterk í Cannes, á einni virtustu kvikmyndahátíð heims.

Síðast keppti stuttmynd Gunnar Martinsdóttur Schlüter, Fár, um gullpálmann í flokki stuttmynda árið 2023 og hlaut þar sérstaka viðurkenningu. Árið áður var Volaða land eftir Hlyn Pálmason sýnd í Un Certain Regard. Hlynur heimsfrumsýndi einnig kvikmynd sína Hvítan, hvítan dag í Critic's Week árið 2019. Árið 2021 var Dýrið eftir Valdimar Jóhannsson valin frumlegasta myndin í Un Certain Regard og árið 2015 vann kvikmyndin Hrútar, í leikstjórn Gríms Hákonarsonar, til aðalverðlauna í flokknum. Aðrar íslenskar myndir sem hafa verið sýndar í Un Certain Regard eru Sódóma Reykjavík eftir Óskar Jónasson árið 1993, Stormviðri eftir Sólveigu Anspach árið 2003 og Voksne mennesker eftir Dag Kára árið 2005.

Vefmiðillinn Klapptré birti árið 2022 fróðlega samantekt yfir íslenskar kvikmyndir sem sýndar hafa verið á hátíðinni.

Kvikmyndahátíðin í Cannes 2024 stendur yfir 14.-25. maí.

Mynd: Frá heimsfrumsýningu Volaða lands í Cannes 2022.